„Það fór bara framhjá okkur“

Árni segir lögreglu ekki hafa haft vitneskju um að maðurinn …
Árni segir lögreglu ekki hafa haft vitneskju um að maðurinn starfaði enn með börnum fyrr en í janúar. mbl.is/Golli

Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu, segir að um leið og lögregla hafi haft óyggjandi sannanir fyrir því að karlmaður á fimmtugsaldri, sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um gróf kynferðisbrot gagnvart ungum dreng, væri núverandi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið gripið til ráðstafana og yfirvöldum gert viðvart. Þá hafi maðurinn verið handtekinn og hann úrskurðaður í gæsluvarðhald. Það var 19. janúar síðastliðinn. Kæran var hins vegar lögð fram í ágúst á síðasta ári og fimm mánuðir liðu þangað til drengurinn var kallaður í skýrslutöku.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og réttargæslumaður drengsins, hafði þá margítrekað kæruna og óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins hjá lögreglu. Fyrirspurnum hans var hins vegar aldrei svarað.

Árni segist ekki hafa vitneskju um að kæran hafi verið ítrekuð, en blaðamaður hefur tölvupósta undir höndum sem sýna að fulltrúi lögmannsins sendi tvo pósta á ákveðinn lögreglumann innan kynferðisbrotadeildarinnar, án þess að svör bærust. Áður hafði hann reynt að fá upplýsingar um stöðu málsins símleiðis. Sævar segir hafa verið skýrt í þeim gögnum sem hann lagði fram vegna málsins að maðurinn starfaði með börnum.

Árni vill hins vegar meina að lögregla hafi ekki haft þær upplýsingar fyrr en í janúar á þessu ári.

„Það var talað um að hann hefði á sínum tíma verið starfsmaður barnaverndar á sínum tíma, en það fór bara framhjá okkur þangað til í janúar að hann væri núverandi starfsmaður. Við erum mannleg eins og aðrir og okkur geta yfirsést hlutir,“ segir Árni í samtali við mbl.is.

Árni segir þessa yfirsjón vissulega litna alvarlegum augum. „Já, við hörmum það að sjálfsögðu að þetta hafi ekki komið upp fyrr. Um leið og gátum farið að sinna þessu og komum auga á þetta þá höfðum við strax samband við barnavernd.“

Árni segir það jafnframt hafa komið í ljós þegar farið var að leggjast yfir málið að maðurinn hafði áður verið kærður fyrir kynferðisbrot árið 2013. Brotin voru hins vegar talin fyrnd og málið því látið niður falla á sínum tíma.

Hann segir tæplega 160 mál til rannsóknar hjá kynferðisbrotadeildinni og málum sé forgangsraðað. „Við reynum að meta þetta og það er alltaf spurning hvenær við komumst í mál. Eins og þegar um gömul mál er að ræða þar sem ekki eru mörg atriði til þess að rannsaka, líkt og í þessu tilfelli þar sem þetta er sjö ára gamalt brot. Svo erum við erum kannski með fullt af öðrum brotum þar sem eru rannsakanlegar forsendur, en þegar við

Árni segir að síðasta árið hafi kynferðisbrotadeildin verið með fjöldann allan af málum inni á borði hjá sér sem hafi krafist tafarlausrar aðkomu allrar deildarinnar marga daga í senn, jafnvel vikur. Á meðan sé ekki hægt að sinna öðrum málum.

Aðspurður hvers vegna farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir manninum segir hann rannsóknarforsendur málsins þess eðlis að nauðsynlegt hafi verið að fara fram á gæsluvarðhald.

Líkt og fram hefur komið starfaði maðurinn á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti, sem rekið er af Barnavernd Reykjavíkur, þegar hann var handtekinn. Hann hafði starfað þar frá árinu 2010, en hefur starfað með börnum og unglingum nánast alla sína starfsævi, meðal annars á vistheimilum og sem stuðningsfulltrúi.

Hann var stuðningsfulltrúi drengsins sem lagði fram kæru á hendur honum í ágúst síðastliðnum, en meint brot eiga að hafa verið framin á árunum 2004 til 2010. Drengurinn var þá aldrinum 8 til 14 ára. Dvaldi hann reglulega á heimili mannsins og fór þangað eftir þörfum bæði um helgar og á virkum dögum. Systkini drengsins dvöldu á tímabili einnig á heimili mannsins og talið er að hann hafi líka brotið gegn þeim. Réttargæslumaðurinn segir brotin gegn drengnum hafa verið mjög gróf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert