316 leitað til Bjarkarhlíðar á 9 mánuðum

Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hóf starfsemi sína 2. mars …
Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hóf starfsemi sína 2. mars 2017. Bjarkarhlíð veitir fullorðnum þolendum ofbeldis þjónustu burtséð frá kyni. mbl.is/Hallur

316 hafa leitað til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, frá því að miðstöðin tók til starfa í mars í fyrra. 58% þeirra mála sem komu upp hjá Bjarkarhlíð fóru áfram til lögreglunnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Bjarkarhlíð um umfang fyrsta starfsársins. 91% þeirra sem leituðu aðstoðar voru konur, en 9% karlar. 

Bjarkarhlíð veitir fullorðnum þolendum ofbeldis þjónustu burtséð frá kyni. Boðið er upp á viðtöl hjá samstarfsaðilum þeim að kostnaðarlausu, á þeirra forsendum. Bjarkarhlíð er tilraunaverkefni til þriggja ára og samstarfsverkefni níu aðila sem allir hafa langa reynslu og góða þekkingu á málaflokknum.

Íslendingar voru í meirihluta þeirra sem komu í Bjarkarhlíð, eða 281 einstaklingur (89%). Af þeim sem voru erlendir komu 20 (6%) frá löndum innan Evrópu og 15 einstaklingar (5%) frá löndum utan Evrópu.

Einstaklingar á aldrinum 18-29 ára leituðu oftast til Bjarkarhlíðar, eða 39%. 30% þjónustuþega var á aldrinum 30-39 ára. Samtals voru því tæp 70% á aldrinum 18-39 ára.

Rúmlega helmingur glímt við sjálfsvígshugsanir

Af þeim sem leituðu til Bjarkarhlíðar hefur rúmur helmingur, eða 53%, glímt við sjálfsvígshugsanir í tengslum við ofbeldi. Þá var mjög stór hlutimeð sögu um fyrri áföll eða 79%. Í þessu tilfelli voru einstaklingar spurðir um það áfall sem tengist ofbeldi og/eða áfall sem hefur haft veruleg áhrif á líf viðkomandi.

Núverandi og fyrrverandi makar oftast gerendur

Í tilkynningu frá miðstöðinni kemur fram að flest málin sem komu á borð Bjarkarhlíðar voru heimilisofbeldismál eða 74%. 14% gerenda var núverandi maki, 46% var fyrrverandi maki, 1% var barn og í 13% tilvika var gerandi ættingi viðkomandi.

Meirihluti þolenda hafði rætt ofbeldið við geranda, eða 73%. Viðbrögð gerenda voru oftast á þá leið að kenna þolanda um ofbeldið (36%), að hafna ofbeldinu (35%) en 18% viðurkenndi ofbeldið.

Af þeim 316 sem til Bjarkarhlíðar leituðu ræddu 184 við lögregluna eða 58%. Af þeim leituðu 49% til lögreglu vegna heimilisofbeldis og 38% vegna kynferðisofbeldis og 13% vegna annarra mála. Kærur voru lagðar fram í 62 málum (34% af 184 málum). 31% kæranna varðaði heimilisofbeldi, 64% kæranna varðaði kynferðisofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert