53 þúsund umsóknir um miða

Íslenska landsliðið á EM í Frakklandi.
Íslenska landsliðið á EM í Frakklandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu óskuðu eftir tæplega 53 þúsund miðum á leiki liðsins á HM í Rússlandi í sumar.

Þetta kemur fram í svari Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, við fyrirspurn vefsíðunnar Fótbolti.net.

Í morgun var lokað fyrir umsóknir um miða. Þeir sem sóttu um fá að vita í síðasta lagi um miðjan mars hvort þeir fái ósk sína uppfyllta að sjá Ísland spila á HM. Miðað við þennan fjölda umsókna er ljóst að mun færri stuðningsmenn Íslands komast á leikina en vilja. 

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að knattspyrnusambandið hafi ekki fengið neina tölu um fjölda íslenskra umsókna frá FIFA.  „Við höfum óskað eftir frekari upplýsingum frá FIFA. Við bíðum þolinmóð eftir því að heyra frá þeim,“ segir hún.

„Við vitum ekki hvað er á bak við þessa tölu,“ bætir hún við og veltir fyrir sér hvort þarna séu meðtaldir þeir miðar sem var hægt að sækja um á síðasta ári og hvort einhverjir miðar séu tvítaldir.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Klara að KSÍ geri ekki ráð fyrir því að Íslendingar fái fleiri miða á leiki á HM en þau 8% sölumiða sem greint hefur verið frá.

Miðað við það verða aðeins um 3.200 Íslendingar á vellinum í Moskvu þegar Ísland og Argentína mætast í Moskvu 16. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert