73% allra ferða í borginni á einkabílum

Niðurstöður nýrrar ferðavenjukönnunar sýna að ferðamátaval Reykvíkinga breytist ekki mikið …
Niðurstöður nýrrar ferðavenjukönnunar sýna að ferðamátaval Reykvíkinga breytist ekki mikið frá fyrri könnunum. Almennur vöxtur hefur þó mælst í samgöngum. mbl.is/Hari

Samkvæmt nýrri ferðavenjukönnun sem Reykjavíkurborg lét gera eru 73% allra ferða í borginni farnar á einkabíl. 7% ferða eru farnar á reiðhjóli og 4% með strætisvögnum.

Ferðavenjukönnun hefur verið framkvæmd af Gallup á þriggja ára fresti frá árinu 2011, en könnunin var fyrst gerð árið 2002.

Könnunin fór fram í október 2017 og í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að í úrtakinu nú voru um 14.600 íbúar höfuðborgarsvæðisins á aldrinum 6-80 ára. Íbúar fara, samkvæmt könnuninni, að meðaltali 4,1 ferð á virkum degi. Af því má leiða að um 217 þúsund íbúar svæðisins fari því samtals um 890 þúsund ferðir á hefðbundnum virkum degi.

Vöxtur í hjólreiðum og innstigum í strætó

Niðurstöður könnunarinnar sýna að ferðamátaval breytist lítið frá fyrri könnunum. „Áhugavert er að sjá að samkvæmt könnuninni haustið 2017 jókst hlutdeild hjólreiða úr 4% í 6% frá könnun 2014. Það jafngildir því að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi farið yfir 50 þúsund ferðir á reiðhjóli á venjulegum degi í október 2017,“ segir í tilkynningu.

Mikill vöxtur hefur almennt verið í samgöngum og hefur innstigum í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu fjölgað úr 9,0 milljónum árið 2011 í 11,7 milljónir árið 2017. „Það er um 30% aukning sem er langt umfram íbúafjölgun. Samkvæmt talningum Vegagerðarinnar á þremur föstum talningarstöðum á stofnvegakerfinu jókst meðalumferð á dag (ÁDU) um tæplega 30% frá 2011 til 2017,“ segir í tilkynningu.

Hlutdeild þeirra sem nota hjól sem samgöngutæki í borginni hefur …
Hlutdeild þeirra sem nota hjól sem samgöngutæki í borginni hefur aukist úr 4% í 6% á þremur árum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hlutdeild einkabíla minnst í miðborginni, Hlíðum og Vesturbæ

Umtalsverður munur er á ferðamátavali eftir hverfum borgarinnar, líkt og í fyrri könnunum. Í tilkynningu frá borginni kemur fram að íbúar í Vesturbæ og Hlíðum fóru 10% ferða sinna hjólandi og 20-24% ferða sinna gangandi. Hlutdeild einkabíla í ferðum íbúa miðborgar, Hlíða og Vesturbæjar er samkvæmt könnuninni á bilinu 57% til 65%. Í öðrum hverfum borgarinnar er hlutdeild einkabíla meiri.   

mbl.is