Auður sýknuð í meiðyrðamáli

Auður Jónsdóttir rithöfundur.
Auður Jónsdóttir rithöfundur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Auður Jónsdóttir rithöfundur var í dag sýknuð af meiðyrðakæru Þórarins Jónassonar, eiganda Laxness hestaleigu í Mosfellsdal, vegna greinar sem hún skrifaði og var birt á Kjarninn.is 13. júní árið 2016 undir fyrirsögninni „Forseti landsins“.

Fór Þórarinn fram á að þrjú ummæli í greininni væru dæmd dauð og ómerk. Sagði hún Þórarinn þar meðal annars stunda dýraníð og náttúruníð, að hann væri með „dollaraseðlana upp úr rassaskorunni“ og að hann eygði ekki um náttúruna heldur bara peninga.

Auður er barnabarn Halldórs Laxness Nóbelsverðlaunahafa sem bjó á Gljúfrasteini, sem er bærinn á móti Laxnesi í Mosfellsdal. Var það æskuheimili hennar. Auður skrifaði greinina í tilefni af forsetaframboði Andra Snæs Magnasonar og ræddi hún þar gróðurmál í Mosfellsdal sérstaklega.

Í stefnu sinni fór Þórarinn, sem einnig er þekktur sem Póri í Laxnesi fram á að eftirfarandi ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk:

  1. „Hann sagði þetta vera dýraníð og náttúruníð af verstu sort. En hann gat ekkert gert, sama hvernig hann fjargviðraðist og skammaðist og varaði fólk við. Því hestabóndinn var í rjúkandi feitum viðskiptum og sennilega með nógu góð tök á hreppsnefndinni til að þetta fengi að viðgangast ár eftir ár- og enn þann dag í dag.“
  2. „Mikið mátt þú skammast þín, Póri í Laxnessi [sic]. Karlkjáni með dollaraseðlana upp úr rassskorunni á reiðbuxunum þínum. Skammastu þín fyrir að eyðileggja náttúru Íslands og skammastu þín fyrir að fara svona illa með hestana þína að bjóða þeim upp á strá og mold.“
  3. „Körlum og kerlingum eins og Póra í Laxnessi [sic] sem eygja ekki náttúruna heldur bara peninga. Það sem hefur lifað og dafnað í þúsundir ára er skemmt á augabragði svo firrt fólk geti keypt sér nýtt sófasett eða farið í skemmtisiglingu, gott ef ekki stofnað póstkassafyrirtæki á suðrænni eyju og sent þangað féð sem ætti með réttu að vera burðarstoð samfélagsins.“

Fyrir dómi sagði Auður að sér hafði brugðið þegar hún kom heim eftir að hafa búið erlendis um áraskeið og séð hvernig landið í Laxnesi væri orðið. Benti hún til samskipta Þórarins við Mosfellsbæ, Landgræðslu ríkisins, ferðamálayfirvalda og fleiri opinberra aðila sem hún taldi varpa ljósi á ástand landsins vegna ofbeitar.

Þórarinn sagði hins vegar að hann hefði ötullega unnið að uppgræðslu landsins meðal annars með aðstoðar Landgræðslunnar.

Þórarinn Jónasson, betur þekktur sem Póri í Laxnesi, stofnaði ásamt …
Þórarinn Jónasson, betur þekktur sem Póri í Laxnesi, stofnaði ásamt eiginkonu sinni Hestaleiguna Laxnes árið 1968. Halldór Kolbeins

Í dómi héraðsdóms er vísað til þess að á árunum 1991 til 2001 hafi ítrekað verið gerðar athugasemdir við ofbeit á landinu. Hafi Landgræðslan talað um „mikla ofbeit“ og „skerðingu beitarþols og jarðvegseyðingu.“ Þá hafi hún árin 1994-6 vakið sérstaka athygli á stöðu mála á jörðinni og að þar fari fram „mjög slæmt ástand lands og grófleg ofnýting beitarhaga.“

Rannsóknarstofnun landbúnaðarins sendi Mosfellsbæ einnig bréf árið 1996 til að benda á að ástand landsins teldist svo slæmt að það væri ekki hæft til beitar hrossa. Árið 1998 óskaði svo Landgræðslan eftir því að sveitarfélagið myndi hlutast til um friðun hluta lands Laxness.

Árið 1999 var úrskurðað um friðun fjögurra beitarsvæða á landinu vegna ofbeitar þar sem víða væru opin rofsár. Þrátt fyrir það hafði eigandinn beitt hrossum á landinu. Var eigandinn kærður af garðyrkjustjóra Mosfellsbæjar til lögreglu vegna málsins.

Telur dómurinn að fyrrnefnd gögn styðji að framburður Auðar um meðferð á landinu sé ekki úr lausu lofti gripinn eða tilhæfulaus.

Dómurinn tekur ekki undir rök Þórarins að hann hafi komið að uppgræðslu landsins, en það hafi verið sonur hans sem hafi haft samband við Landgræðsluna um ráðgjöf vegna þess. Þá telur dómurinn að þrátt fyrir ráðgjöfina megi ætla að sá framburður að ofbeit eigi sér stað á landinu enn þann dag í dag eigi sér nokkra stoð í staðreyndum málsins.

Segir jafnframt í dóminum að grein Auðar hafi verið sett fram til að vekja athygli á þeim verðmætum sem felist í náttúru landsins og því tjóni sem geti hlotist til lengri tíma ef fjárhagslegir stundarhagsmunir gagni framar því að halda uppi vörnum fyrir náttúruna. Slík skilaboð séu innlegg í mikilvæga þjóðfélagsumræðu.

„Umstefnd ummæli voru liður í almennri þjóðfélagsumræðu og eiga stuðning í þegar fram kominni opinberri umfjöllun, sem stefnandi tók þátt í. Því má játa stefndu rýmri rétt til tjáningar en ella, án þess að hún teljist ærumeiðandi með þeim hætti að hún brjóti gegn þeim rétti stefnanda til æruverndar sem honum er tryggður með ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir í dóminum.

Því telur dómurinn að Auður hafi ekki viðhaft móðgun eða ærumeiðandi aðdróttun í garð Þórarins og er hún því sýknuð. Er honum gert að greiða Auði 1,5 milljón í málskostnað.

Dóminn í heild má lesa á vef dómstólanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert