„Fólk segist kannast við þennan mann“

Sævar veit um tíu tilfelli þar sem talið er að …
Sævar veit um tíu tilfelli þar sem talið er að maðurinn hafi beitt barn kynferðisofbeldi. mbl.is/Kristinn

Margir hafa sett sig í samband við Sævar Þór Jónsson, lögmann og réttargæslumann drengs ­sem lagði fram kæru á hend­ur karlmanni á fimmtugsaldri í ág­úst á síðasta ári fyr­ir gróf kyn­ferðis­brot sem hann á að hafa framið gegn hon­um á ár­un­um 2004 til 2010, bæði til að koma á framfæri upplýsingum um meint brot mannsins og til að fá staðfestingu á því hver hann er. „Fólk lýsir málsatvikum og segist kannast við þennan mann,“ segir Sævar í samtali við mbl.is.

Samtals veit Sævar um tíu tilfelli þar sem maðurinn á að hafa brotið kynferðislega gagnvart börnum. Um er að ræða þrjá skjólstæðinga Sævars, drenginn sem lagði fram kæruna og systkini hans, ásamt sjö öðrum tilfellum sem Sævar hefur fengið upplýsingar um. „Þetta eru einstaklingar sem virðast hafa verið í hans umsjá og einstaklingar sem virðast hafa fjölskyldutengsl við manninn,“ segir Sævar. „Þetta eru allt í allt tíu tilvik sem ég veit núna um,“ bætir hann við.

Lögreglan hefur verið í sambandi við hann og beðið hann um upplýsa um málin, sem hann hefur gert eftir bestu getu. Sævar á hins vegar erfitt með að gefa þeim sem hafa samband einhverjar upplýsingar. „Sá vandi snýr að mér að ég get ekki upplýst þessa aðila sem hafa samband við mig um neitt varðandi málið. Ég get ekki gefið upp nafn geranda eða neitt slíkt og vísa þessum málum til lögreglu,“ segir Sævar.

Hann hvetur alla þá sem hafa einhverjar upplýsingar um málið að leita núna til lögreglu. Það geti hjálpað mikið til að upplýsa málið. „Ég treysti því að lögregla vinni úr öllum þeim upplýsingum.“

Var einnig kærður árið 2013

Maðurinn sem um ræðir hefur starfað með börnum nánast alla sína starfsævi og þegar hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald, þann 19. janúar síðastliðinn, starfaði hann á skammtímaheimili fyrir unglinga sem rekið er af Barnavernd Reykjavíkur. Maðurinn hafði starfað á heimilinu frá árinu 2010.

Sævar hefur gagnrýnt hve langan tíma það tók lögreglu að hefja rannsókn málinu, en fimm mánuðir liðu frá því kæra var lögð fram og þar til drengurinn var kallaður í skýrslutöku. Þá hafði Sævar ítrekað óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins frá lögreglu, án árangurs.

Sævar segir það hafa komið skýrt fram í gögnum málsins að maðurinn starfaði með börnum, en lögregla vill meina að þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir fyrr en í janúar.

Maðurinn var einnig kærður til lögreglu fyrir kynferðisbrot gagnvart barni árið 2013. Þau brot voru hins vegar talin fyrnd og málið því látið niður falla. Barnavernd Reykjavíkur fékk þó aldrei tilkynningu um þá kæru, þrátt fyrir að maðurinn starfaði á þeim tíma með börnum á þeirra vegum.

Þá hefur mbl.is heimildir fyrir því að maðurinn hafi verið tilkynntur til barnaverndaryfirvalda og Félagsþjónustunnar í Reykjavík árið 2008. Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, sagði hins vegar í samtali við mbl.is að hún kannaðist ekki við að slíkt tilkynning hefði borist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert