Framtíð póstþjónustu stórpólitísk spurning

Bréfsendingum hefur fækkað mikið undanfarin ár og það hefur komið …
Bréfsendingum hefur fækkað mikið undanfarin ár og það hefur komið niður á rekstri Íslandspósts. mbl.is/Ernir

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir það stórpólitíska spurningu hvernig standa eigi undir þeim hluta póstkerfisins sem sé óarðbær, en Íslandspóstur annast alþjónustu í póstdreifingu hérlendis.

Alþjónustan felst í því að tryggja landsmönnum öllum, án mismununar, greiðan aðgang að póstþjónustu. Íslenska ríkið hefur þá skyldu samkvæmt lögum, en Íslandspóstur sinnir því verkefni samkvæmt sérstöku rekstrarleyfi. Íslandspóstur hefur einkarétt á bréfsendingum undir 50 gr. hérlendis, en einnig alþjónustuskyldu á samkeppnismarkaði, sem þýðir að félagið verður að dreifa pökkum allt að tuttugu kílóum um land allt.

Þeim hluta þjónustunnar fylgir mikið tap fyrir Íslandspóst, sem er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Það tap hefur verið greitt upp með hagnaði af einkaréttarstarfseminni, bréfsendingum, en sendum bréfum fækkar ár frá ári og nú er það orðið svo að hagnaður vegna bréfsendinga dugar ekki til að mæta tapi af alþjónustunni í heild sinni.

Ingimundur segir Íslandspóst hafa verið með allar klær úti, svo sem vöru- og þjónustusölu á pósthúsum, til þess að mæta þessu tapi.

„Það liggur í hlutarins eðli að þegar bréfum fækkar á næstu árum og áratugum verða menn að svara þeirri spurningu hvernig eigi að standa undir óarðbærum hluta póstkerfisins. Þetta er stóra spurningin,“ segir Ingimundur í samtali við mbl.is.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts.

Hann bendir á að víðast hvar í Evrópu sé póstdreifing á óarðbærum markaðssvæðum niðurgreidd með beinum hætti af ríkinu.

 „Í Vestur-Evrópu er það þannig að póstfyrirtæki hafa fengið umtalsverðar greiðslur úr ríkissjóðum til að standa undir því kerfi. Það hefur ekki verið aðferðafræðin hér, þar sem Íslandspóstur hefur þurft að standa undir óarðbærum hluta dreifikerfisins með sjálfsaflafé,“ segir Ingimundur og bendir á að Norðmenn veiti t.d. árlega um 6 milljörðum íslenskra króna í beinar niðurgreiðslur vegna póstdreifingar.

Gert að endurskoða verðskrár

Íslandspóstur hefur fengið heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að fækka dreifingardögum á bréfpósti í þéttbýli niður í tvo í viku og tekur sú breyting gildi þann 1. febrúar næstkomandi. Það mun lækka dreifingarkostnaðinn, en um leið úrskurðaði stofnunin um að Íslandspósti bæri að endurskoða verðskrár sínar, þar sem það hagræði sem til verði við breytingar eigi að skila sér til þeirra notenda þjónustunnar sem eigi við hverju sinni.

„Við höfum yfirleitt endurmetið verðskrár hjá okkur að minnsta kosti einu sinni á ári, jafnvel oftar, eftir því hvernig hlutir eru að þróast og það hefur alltaf legið fyrir að við myndum endurmeta verðskránna að teknu tilliti til þeirra breytinga sem þetta hefur á kostnaðargrundvöllinn, rétt eins og annarra þátta sem hafa áhrif þar á eins og breytingar á launakjörum, lögbundin stækkun á dreifikerfi og annað þvíumlíkt,“ segir Ingimundur.

Ekki liggur þannig fyrir að um verðlækkun verði að ræða, þrátt fyrir dreifingardögum fækki.

„Það á bara eftir að koma í ljós. Við erum með ákveðið kostnaðarmódel sem við fylgjumst vel með og byggjum verðútreikninga á, en Póst- og fjarskiptastofnun hefur það verkefni að fara svo yfir verðskrár Íslandspósts,“ segir Ingimundur og bætir við að dreifingarkostnaðurinn sé aðeins einn þáttur af mörgum í kostnaðarmódelinu og verðmynduninni.

Atvinnurekendur í herferð gegn Póstinum

Félag atvinnurekenda (FA) sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku í kjölfar þess að úrskurður Póst- og fjarskiptastofnunar var birtur. Þar sagði að félagið teldi augljóst að eftirlitsstofnunin hefði stöðvað Íslandspóst í því að ætla að rétta af taprekstur á þjónustu, sem rekin er í samkeppni við einkafyrirtæki, með því að sækja sér stóraukinn hagnað af einkaréttarþjónustu.

Ingimundur gefur lítið fyrir þetta og segir að í þessari umræðu sé svamlað í gruggugu vatni. Félag atvinnurekenda nýti sér það hversu lítinn skilning flestir hafi á uppbyggingu póstdreifingarmarkaðarins hérlendis til að afvegaleiða umræðuna.

Erfitt geti reynst fyrir þá sem ekki eru inni í málum að átta sig á samhengi tekna Íslandspósts, skyldu fyrirtækisins til þess að veita lögbundna þjónustu og hvernig löggjafinn ætlast til þess að þjónustan sé borin uppi. Framsetningin FA sé villandi og í mörgum tilvikum beinlínis röng.

„Mér finnst þessi málflutningur hártogun. Ég skil ekki alveg á hvaða vegferð Félag atvinnurekenda er. Þetta virkar á mig þannig að félagið sé í sérstakri herferð gagnvart félaginu og í seinni tíð kannski sérstaklega gagnvart stjórnendum fyrirtækisins. Ég skil ekki þennan málflutning, því miður,“ segir Ingimundur.

Stóra verkefnið á sviði póstþjónustu

Pósturinn hefur sem áður segir skyldu til þess að dreifa pósti hvert á land sem er og þá einnig á þá staði þar sem einkafyrirtæki veita ekki þjónustu af þeim ástæðum að það er óarðbært. Tekjurnar af þeirri þjónustu duga ekki til að standa undir henni.

Ingimundur segir að af hálfu Íslandspósts hafi margoft og lengi verið á það bent að taka þurfi á fjármögnun lögbundinnar póstþjónustu á þeim óvirka markaði, sem ekki stendur undir kostnaði við þjónustuna.

„Þetta er atriði sem stjórnvöld í flestum Evrópuríkjum, sem afnumið hafa einkarétt á bréfadreifingu, hafa staðið frammi fyrir.  Brugðist hefur verið við með ýmsum hætti, og hefur sumum tekist vel til en öðrum miður, svo sem fréttir hafa borist af frá Danmörku,“ segir Ingimundur.

„Á meðan Íslandspóstur er með rekstrarleyfi fyrir póstþjónustu, eru hendur stjórnenda fyrirtækisins bundnari en almennt gerist í rekstri hlutafélaga,“ segir Ingimundur og bendir á að sem rekstrarleyfishafi verði fyrirtækið að sinna lögbundnum verkefnum óháð tekjum sem af þeim hljótast og einnig sæta því að tekjur af tiltekinni þjónustu við erlend póstfyrirtæki séu bundnar af alþjóðasamningum um póstburðargjöld, sem í mörgum tilvikum standi ekki undir kostnaði.

Bendir Ingimundur sérstaklega á kostnað við dreifingu smærri sendinga frá Asíulöndum á borð við Kína á þessu samhengi, en fjöldi þeirra hefur stóraukist á undanförnum árum.

Íslandspósti er skylt að dreifa bögglapósti allt að 20 kílóum …
Íslandspósti er skylt að dreifa bögglapósti allt að 20 kílóum um allt land, en tap er af þeirri þjónustu.

„Þetta er stóra verkefnið á sviði póstþjónustunnar hér á landi, sem stjórnvöld standa frammi fyrir. Vonandi næst um það góð umræða á Alþingi, þegar frumvarp til nýrra póstlaga verður tekið þar til umfjöllunar eins og fyrirhugað er.  Þar verður þá væntanlega tekin afstaða til afnáms einkaréttar ríkisins á bréfadreifingu og þá jafnframt hvernig standa á undir kostnaði við þjónustu, þar sem hún stendur ekki undir sér.“

Fækkun dreifidaga dugi skammt

Hann segir að Íslandspóstur hafi tilkynnt samgönguráðuneytinu það um mitt ár 2016 að félagið sjái  sér ekki fært að sinna póstþjónustunni við óbreyttar aðstæður.  Í framhaldi af því hafi reglugerð um framkvæmd póstþjónustu verið breytt, þannig að opnað hafi verið fyrir möguleika á fækkun dreifingardaga, sem nú kemur til framkvæmda 1. febrúar.

Sú aðgerð dugi þó skammt ef bréfum fækki enn, eins og allt útlit sé fyrir.

„Félagið hafði verið rekið með tapi í fjögur ár og það eru takmörk fyrir því hvað það er hægt að niðurgreiða starfsemi lengi með taprekstri, þó að það kunni að henta eigandanum. Stjórnendur hlutafélaga hafa lögum samkvæmt skyldur gagnvart ýmsum öðrum hagaðilum sem koma að rekstri fyrirtækisins,“ segir Ingimundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert