Ganga lengra en lög segja til um

Hulda Elsa segir það vinnulag hjá lögreglu, að hafi einstaklingur …
Hulda Elsa segir það vinnulag hjá lögreglu, að hafi einstaklingur sem grunaður er um brot gegn barni, starfað með börnum þá sé grennslast fyrir um hvort að hann sé enn starfandi. mbl.is/Golli

Leiki grunur á að einstaklingur sem starfað hefur með börnum hafi brotið gegn barni, þá ber lögreglu að kanna það. Þetta segir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég myndi segja að það sé vinnulag hjá lögreglu, að hafi viðkomandi starfað með börnum þá er rétt að kanna það nánar og grennslast fyrir um hvort að hann sé enn starfandi,“ segir Hulda Elsa. „Þess vegna erum við líka að segja að þetta séu mistök.“

Stöð 2 greindi frá því á mánudag að maður sem starfaði sem stuðningsfulltrúi hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 19. janúar vegna brota sem hann á að hafa framið gegn skjólstæðing sínum á árunum 2004-2010. Kæran var lögð fram í ágúst á síðasta ári, en rannsókn lögreglu hófst ekki fyrr en í byrjun þessa árs og hefur verið gagnrýnt hve langur tími leið þar á milli.  Fjölmiðlar greindu svo frá því í gær að maðurinn hefði einnig verið kærður til lög­reglu fyr­ir kyn­ferðis­brot gagn­vart barni árið 2013, en að þau brot hafi verið tal­in fyrnd og málið því látið niður falla.

Barna­vernd Reykja­vík­ur hefur sagt að þeim hafi ekki verið tilkynnt um þá kæru, en að barnaverndaryfirvöld hafi átt í góðu samstarfi við lögreglu um málið frá því að þeim var tilkynnt um það nú í janúar. Hulda Elsa segist ekki geta tjáð sig um kæruna frá 2013 þar sem hún þekki ekki til þessa máls.

„Við höfum hins vegar haft það vinnulag að ef einhver sem starfar, eða hefur starfað, með börnum er grunaður um brot gegn barni þá er það kannað nánar.“

Skoðað óháð því hvort telja megi að eitthvað ákveðið barn búi við hættu

Barnaverndarlög kveði á um að tilkynna eigi til barnaverndaryfirvalda sé ástæða til að ætla að eitthvað tiltekið barn búi við óviðeigandi aðstæður. „Við gögnum því beinlínis lengra,“ segir hún. Mál séu skoðuð þó að ekki sé ástæða til að ætla að eitthvert tiltekið barn búi við hættu nákvæmlega á þeirri stundu eins og barnaverndarlög kveði á um. Rannsóknarskylda lögreglu veiti henni hins vegar svigrúm til að senda fyrirspurnir á barnavernd. „Því það er hlutverk lögreglu að gæta almannaöryggis,“ bætir hún við.

Þá sé barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um slík mál. „Það er svo þeirra að gera ráðstafanir með þær upplýsingar. Þannig hefur þetta virkað.“

Rannsókn á máli mannsins er enn í fullum gangi hjá kynferðisbrotadeild, en gæsluvarðhald yfir honum rennur út á föstudag. „Þarna vinnur vandað fólk sem kappkostar að vinna vinnuna sína vel,“ segir Hulda Elsa. Tveir rannsóknarlögreglumenn og einn fulltrúi af ákærusviði hafa þó einnig fengið það hlutverk að yfirfara öll mál kynferðisbrotadeildar lögreglunnar sem eru til rannsóknar og greina þau.

Hulda Elsa segist ekki tjá sig nánar um þá yfirferð, né heldur hvort að hún muni leiða til breytinga á starfsaðferðum og forgangsröðun. „Þetta er allt í skoðun og verður yfirfarið vandlega.“

Henni er heldur ekki kunnugt um það hvort að lögreglu hafi borist fleiri ábendingar vegna máls mannsins í dag. „Við þekkjum það þó alveg að þegar svona mál koma upp í samfélaginu, að þá getur komið holskefla af málum til okkar. Það kann vel að vera svo verði einnig núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert