Málflutningur hefst í næstu viku

Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi.
Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Málflutningur í fyrstu áfrýjunarmálunum sem tekin verða fyrir í Landsrétti hefst á þriðjudaginn í næstu viku. Samtals voru 27 mál sem komu til nýja dómstólsins frá Hæstarétti um áramótin og var málsaðilum boðið að koma á framfæri kröfu um viðbótar sönnunarfærslu. Var það ekki gert í tíu málum sem því var hægt að hefja máflutning í strax, en í tveimur af þessum málum voru málflytjendur uppteknir.

Í fyrstu atrennu er því um að ræða átta mál sem nú eru tilbúin til meðferðar dómstólsins, en Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri réttarins, segir í samtali við mbl.is að dagskráin muni líklegast koma á vef Landsréttar síðar í dag eða á morgun.

Í kjölfar þessara átta mála munu svo önnur áfrýjunarmál koma á dagskrá, bæði úr hópi þeirra 27 sem komu frá Hæstarétti og einnig af nýjum málum sem áfrýjað er.

Nú þegar hefur rétturinn kveðið upp nokkra úrskurði, meðal annars í farbanns- og gæsluvarðhaldsmálum. Í þeim tilfellum er úrskurðurinn birtur fljótlega í kjölfar uppkvaðningarinnar. Björn segir að varðandi uppkvaðningu dóma sé hins vegar horft til þess að þeir verði kveðnir upp á föstudögum klukkan 14:00. Verða dómarnir svo birtir samdægurs á vef réttarins.

Er þetta svipað og hjá Hæstarétti sem kveður upp dóma sína á fimmtudögum og birtir samdægurs á vefsíðu sinni. Hjá héraðsdómstólum er hins vegar engin ein regla hvenær dómara eru kveðnir upp og er birting þeirra á vefsíðu dómstólanna nokkuð mismunandi eftir því hvaða dómari er með málið og í hvaða héraðsdómsól það er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert