„Viðbjóðslegustu glæpir sem framdir eru“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði lögreglu ekki eiga að þurfa að …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði lögreglu ekki eiga að þurfa að stafla kynferðisbrotamálum upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gerði kynferðisbrot gegn börnum að umtalsefni sínu í umræður um störf þingsins á Alþingi í dag. Tilefnið er mál fyrrum starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur sem er í gæsluvarðhaldi, grunaður um alvarleg kynferðisbrot á hendur barnungum skjólstæðingum.

„Ég held ég geti fullyrt það að kynferðisafbrot gegn börnum séu viðbjóðslegustu glæpir sem framdir eru. Því koma fréttir af því að starfsmaður barnaverndaryfirvalda hafi verið kærður fyrir gróft kynferðisofbeldi gegn börnum í krafti starfa sinna, eins og þruma úr heiðskíru lofti,“ sagði Rósa Björk.

Hún sagði ljóst að maðurinn hefði fengið að starfa áfram hjá Barnavernd Reykjavíkur í um hálft ár eftir að kæra barst í málinu.

Lögreglu hafi láðst að láta vinnuveitendur hans vita af kærunni sem barst í ágúst og einnig er hann var kærður vegna gruns um kynferðisbrot gegn börnum í fyrra skipti.

„Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur harmað mistök lögreglu og við getum gert öll mistök, en í málum er varða börn og ofbeldi gegn þeim verða þau mistök oft óafsakanleg,“ sagði Rósa Björk.

Mál eigi ekki að staflast upp vegna fjárskorts

Hún sagði málið enn eina birtingarmynd þess að að við sem samfélag séum ekki að tryggja það að berskjölduðustu þegnar íslensks samfélags, börnin okkar, séu „tryggð og varin fyrir kynferðisafbrotamönnum, sem nýta sér ekki bara aldurs- og valdayfirburði heldur sækjast eftir því að vera innan um börn sem eru í veikri félagslegri stöðu.“

Þetta segir Rósa Björk að laga þurfi strax.

„Ef það er eitthvað sem þarf að laga í lagabókstafnum sem lýtur að því að útvíkka enn frekar heimildir til að opna sakaskrár þegar fólk er ráðið til starfa með börnum, þá þarf að laga það.

Ef það er eitthvað sem þarf að laga í því að minnka álag á lögreglufólk með því auka nú loks fjármuni til lögreglunnar, þá skulum við gera það,“ sagði Rósa.

„Lögreglan á ekki að vera svo fjárþurfi og mannaflsþurfi að kærur um kynferðisofbeldi gegn börnum staflist upp í þykkan málabunka á skrifstofuborðinu,“ sagði Rósa og skoraði á félags- og jafnréttismálaráðherra og dómsmálaráðherra að beita sér sérstaklega í þessum málaflokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert