Vilja afnema lög um helgidagafrið

Helgi Hrafn Gunnarsson er einn flutningsmanna frumvarpsins.
Helgi Hrafn Gunnarsson er einn flutningsmanna frumvarpsins. mbl.is/Styrmir Kári

Þingflokkur Pírata hefur lagt til frumvarp þess efnis að lög um helgidagafrið falli brot. Flutningsmenn segjast ekki sjá ástæðu til að takmarka frelsi fólks með lögum en markmið laga um helgidagafrið er að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar.

Flutningsmenn sjá ekki ástæðu til að takmarka frelsi fólks með lögum þannig að það varði sektum að standa að t.d. bingói, happdrætti, dansleikjum eða öðrum samkomum á helgidögum þjóðkirkjunnar. 

Frumvarpið var áður lagt fram á vorþingi fyrir tveimur árum en hlaut þá ekki afgreiðslu og er aftur lagt fram, uppfært með tilliti til umsagna sem þá bárust.

Í greinagerð vegna frumvarpsins er bent á að íslenskt samfélag hafi tekið miklum breytingum síðustu ár og áratugi. Það skjóti skökku við að á sama tíma og Ísland er markaðssett sem áfangastaður um hátíðirnar skuli flestir veitingastaðir og búðir vera lokuð á heilögustu dögunum. Kröfur um breytingar á helgidagalöggjöfinni hafa því orðið háværari undanfarin misseri.

Gerð er sú krafa að atvinnurekendur fái að ráða því sjálfir hvort þeir hafa opið á hátíðisdögum, en þó í samráði við starfsmenn og með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga um hvíldartíma og álagsgreiðslur,“ segir í greinagerðinni.

Frítökuréttur og hvíldartími er þegar tryggður í kjarasamningum en flutningsmenn leggja til orðalagsbreytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku til að tryggja rétt til frídaga enn frekar þannig að í stað þess að helgidagar þjóðkirkjunnar séu skilgreindir sem frídagar verði umræddir dagar taldir upp í ákvæðinu sem lögbundnir frídagar,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert