Byrjað að ræða við börnin

Búið er að ræða við 10-12 börn af þeim 30 …
Búið er að ræða við 10-12 börn af þeim 30 sem enn teljast á barnsaldri og dvalið hafa á skammtímavistheimilinu þar sem maðurinn starfaði. mbl.is/Hari

Búið er að ræða við um 10 þeirra sem enn teljast á barnsaldri og sem dvalið hafa á vistheimili þar sem karlmaður starfaði, sem nú situr í gæsluvarðhaldi grunaður um kynferðisbrot gegn sem skjólstæðingi sem hann var stuðningsfulltrúi fyrir. Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur, segir ekkert benda til þess að þau börn hafi orðið fyrir ofbeldi.

Hún segir engin fleiri mál tengd manninum hafa borist Barnavernd frá því að fréttir bárust í vikubyrjun af því að starfsmaður skammtímavistheimilis, sem starfað hefur hjá borginni í áratugi, sé grunaður um brot gegn börnum. „Þau hafa ekki komið inn á okkar borð, en við erum  bara með börnin á okkar snærum og við höfum ekki fengið neinar tilkynningar vegna barna,“ segir Halldóra.

Fyrirspurnir farnar að berast í Bjarkarhlíð

Barna­vernd hefur sent öll­um full­orðnum ein­stak­ling­um sem hafa dvalið á vistheim­il­um þar sem maður­inn hef­ur starfað bréf, þar sem þeim er boðið viðtal í Bjark­ar­hlíð, miðstöð fyr­ir þolend­ur of­beld­is. Eru það rúmlega 200 manns og staðfestir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnisstjóri Bjarkahlíðar að þangað séu farnar að berast fyrirspurnir vegna málsins.

Einnig hefur Barnavernd samband í gegn­um for­ráðamenn við þá sem enn telj­ast á barns­aldri, þ.e. hafa ekki náð 18 ára aldri, og eru það rúmlega 30 einstaklingar.

„Við erum byrjuð að tala við öll börn sem voru í þessum hópi,“ segir Halldóra og áætlar að búið sé að tala við á bilinu 10-12 börn af listanum. „Það hefur ekkert komið fram ennþá sem bendir til þess að þau hafi orðið fyrir ofbeldi.“

Geri ráð fyrir að mistökin séu okkar

Fjölmiðlar hafa í vikunni greint frá því að Barna­vernd Reykja­vík­ur hafi árin 2002 og 2008 verið til­kynnt um meint eldri kyn­ferðis­brot starfs­mannsins og hefur Halldóra sagst ekki hafa nein­ar upp­lýs­ing­ar um að stofn­un­inni hafi borist kvört­un.

„Ég geri ráð fyrir að fólk hafi hringt og mistökin séu okkar megin,“ segir hún og bætir við að ýmislegt hafi breyst í starfi Barnaverndar frá 2002. „Árið 2008 vorum við nýflutt í Borgartúnið og nýkomin í tengsl við símaverið. Síðan þá erum við komin með sérfræðing á símavakt og við höfum skerpt mjög mikið á á öllum verkferlum á þessum árum.“

Velt verði hins vegar við öll­um stein­um við til að at­huga hvort rétt reynist að slíkar ábendingar hafi borist. „Nú erum við að reyna að ná til allra sem ef til vill eiga um sárt að binda. Við byrjum þar og svo speglum við okkur í framhaldinu varðandi þær úrbætur sem að við teljum að við verðum að gera til að svona ábendingar muni aldrei misfarast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert