Gert að greiða 970 milljónir króna

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í lok ágúst 2016 þess efnis að félagið Aurláki ehf., sem er í eigu fjárfestisins Karls Wernerssonar, skuli greiða þrotabúi Milestone 970.103.914 krónur auk vaxta vegna sölunnar á lyfjaversluninni Lyfjum og heilsu sem seld var frá Milestone til Aurláka í mars árið 2008.

Félagið Aurláki var á þeim tíma þegar salan fór fram í eigu bróður Karls, Steingríms Wernerssonar, en þrotabúið taldi að tilgangurinn með henni hefði verið að koma Lyfjum og heilsu undan gjaldþroti Milestone sem stjórnendum þess félags hefði átt að vera ljóst að stefndi í. Milestone var þá í eigu og undir stjórn bræðranna.

Hæstiréttur tók undir með héraðsdómi um greiðsluskyldu Aurláka og ennfremur að sýkna gagnáfrýjendur af kröfu þrotabúsins, þá Karl Wernersson, Steingrím Wernersson og Friðrik Arnar Bjarnason. Var Aurláka ennfremur gert að greiða þrotabúi Milestone 2 milljónir króna í málskostnað fyrir Hæstarétti en að öðru leyti var málskostnaður látinn niður falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert