Sigríður vildi birta gögnin

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Sigríði Andersen dómsmálaráðherra út …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Sigríði Andersen dómsmálaráðherra út í það sem hún sagði vera rangfærslur í máli hennar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hvernig stendur á því að ráðherra getur ekki veitt fjölmiðlum viðtöl án þess að afskræma sannleikann og gefa ýmist ranga eða villandi mynd af atvikum þessa ömurlega máls?“ spurði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, Sigríði Andersen dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Taldi Þórhildur Sunna að ekki væri rétt sem ráðherrann hefði sagt að gögn úr ráðuneytinu um skipun dómara við Landsrétt hefðu eingöngu borist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og vitnaði hún til birtingar þeirra í Stundinni og þess að umboðsmaður Alþingis hefði einnig óskað eftir gögnunum. 

„Dómsmálaráðherra hefur talað um að hann hafi axlað pólitíska ábyrgð með því að mæta í fjölmiðlaviðtöl og fjalla um störf sín. Nú hefur ráðherrann hins vegar ítrekað farið með rangt mál í fjölmiðlum,“ sagði Þórhildur Sunna. „Þegar Stundin birti gögn úr dómsmálaráðuneytinu í síðustu viku fullyrti ráðherra að gögnin hefðu einvörðungu borist [stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd]. Þetta var rangt og þetta sagði ráðherra að því er virtist einvörðungu til að breiða yfir þá staðreynd að umboðsmaður Alþingis hafði þá kallað eftir þessum sömu gögnum.“

Þá sagði Þórhildur Sunna að Sigríður hefði sagt í viðtali við mbl.is  að skjölin sem að Stundin birti hefðu aldrei átt að birtast. Þau væru vinnugögn. „Nú eru engar viðkvæmar persónuupplýsingar í þessum gögnum og ráðuneytinu hefði verið fullheimilt að veita fjölmiðlum og almenningi þessar upplýsingar á grundvelli ákvæðisins um aukið aðgengi í upplýsingalögum. Hvers vegna fannst ráðherra svona mikilvægt að þessi gögn færu leynt?“

Hún hélt áfram og spurði:

„Hvers vegna fannst hæstvirtum ráðherra svona mikilvægt að almenningi yrði haldið óupplýstum um embættisfærslur hennar við skipun Landsréttardómara? Sama dag skýldi ráðherra sér sérstaklega á bak við það í viðtali viðmbl.is að hún hefði ekki sjálf fengið tölvupósta þar sem fjallað er um mikilvægi þess að hún legði mat á hæfni allra umsækjenda út frá nýjum forsendum. Nú er það alveg ljóst af þeim gögnum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið að vissulega bárust ráðherra gögnin í tölvupósti, m.a. frá ráðuneytisstjóra. Hvernig stendur á því að ráðherra getur ekki veitt fjölmiðlum viðtöl án þess að afskræma sannleikann og gefa ýmist ranga eða villandi mynd af atvikum þessa ömurlega máls? Sýnir þetta ekki að hæstvirtur ráðherra treystir sér ekki eða geti ekki axlað pólitíska ábyrgð með fjölmiðlaviðtölum einum saman?“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í …
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vildi birta öll gögnin

Sigríður benti á að hún hefði setið fyrir svörum á um tveggja klukkustundar löngum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. Sá hafði verið sýndur í beinni útsendingu á vef Alþingis þar sem hann yrði aðgengilegur um ókomna framtíð. „Mér er til efs, þó að ég hafi ekki tölfræðina á takteinum, að nokkur ráðherra í lýðveldissögunni hafi komið jafn oft á opna fundi fastanefnda Alþingis og sá ráðherra sem hér stendur.“ Sagðist hún hafa lýst sig reiðubúna til að mæta á alla þá fundi og í öll þau viðtöl útaf þessu máli eins og frekast væri unnt.

Hvað gögn málsins sem orðið hafa til í ráðuneytinu varðar sagðist hún hafa lýst því yfir að það væri sér algerlega að meinalausu að þau yrðu gerð opin almenningi. „Sérfræðingar ráðuneytisins hins vegar hafa ráðlagt ráðherranum og sett sig upp á móti því að það verði gert, m.a. með vísan til þess að þarna eru tölvupóstar og vinnugögn sem varðar samskipti starfsmanna sín á milli, m.a. einn tölvupóstur sem birtur hefur verið opinberlega sem barst mér til dæmis aldrei.“

Enn einn viðsnúningurinn

Þórhildur Sunna sagði að á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær hafi hún orðið vitni að enn einum viðsnúningi dómsmálaráðherra „þessu þvílíka máli“. Rifjaði hún upp að Sigríður hafi sagt á fundinum að þingið hefði skipunarvaldið, það væri það sem staðfesti skipun dómara. Vitnaði hún svo í ummæli ráðherrans frá því í maí þar sem hann sagði að það væri ráðherra sem hefði veitingarvaldið og bæri ábyrgð á því, bæði pólitískt og stjórnsýslulega. „Hvernig stendur á þessum viðsnúningi hæstvirts ráðherra og hvenær hættir þetta hringleikahús?“

Sigríður sagðist vilja ítreka þau ummæli sín að ákvörðunarvaldið í þessu máli hefði verið hjá Alþingi. „Menn kunna að vera ósammála því en þannig er staðan og ráðherrann getur ekki starfað eftir öðru. Ákvörðun um tillögu til Alþingis liggur að sjálfsögðu hjá ráðherranum en Alþingi hefur ákvörðunarvald þegar ráðherra ákveður að víkja frá tillögum dómnefndar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert