Sjálfsagt að skoða aðferðir við aldursgreiningar

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ræddi málefni Husseins á Alþingi …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ræddi málefni Husseins á Alþingi í dag. mbl.is/​Hari

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir sjálfsagt að skoða hvort beita eigi öðrum aðferðum en nú er gert við að fá úr því skorið hversu gamlir einstaklingar eru sem hingað koma í hælisleit. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Tilefni fyrirspurnar þingmannsins var staða ungmennis frá Marokkó sem setið hefur í gæsluvarðhaldi í yfir áttatíu daga hér á landi.

Hóf Helga Vala mál sitt á því að rekja mál piltsins.

„Í september 2016 komu hingað til lands tveir ungir hælisleitendur með Norrænu á Seyðisfjörð. Þeir náðust á Breiðdalsvík og sögðust þá vera sextán og sautján ára. Eftir að hafa verið færðir á lögreglustöðina á Egilsstöðum og yfirheyrðir voru þeir settir í hendur barnaverndaryfirvalda og þegar farið var að leita eftir því hvernig ætti að snúa sér í málefnum drengjanna var fátt um svör. Þeir voru sendir í læknisskoðun, bólusetningar, aldursgreiningar og viðtöl í Barnahúsi. Niðurstaða aldursgreiningar á tönnum var sú að drengirnir skyldu njóta vafans og vera áfram í umsjá barnaverndarnefndar. Fæðingardagurinn 23. Desember 1999 var færður inn á skírteini drengsins Hussein sem nú hefur í rúma áttatíu daga dvalið í gæsluvarðhaldi í fangelsum landsins. Gæsluvarðhaldi sem eingöngu er ætlað harðsvíruðum glæpamönnum. Hann er í gæsluvarðhaldi vegna þess að hann gerði ítrekaðar tilraunir til að leita verndar í öðru ríki þar sem íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að vinur hans skyldi njóta verndar hér á landi en ekki hann.“

Ómannúðlegar aðferðir

Benti Helga Vala á að fjallað væri um aldursgreiningar í lögum um útlendinga þar sem segir að gengið skuli út frá því að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera barn sé álitið barn við meðferð máls nema það þyki afar ósennilegt eða að annar komi í ljós við aldursgreiningu eða með öðrum hætti. „Ef ekki hefur tekist að leiða í ljós aldur umsækjanda með nægilega tryggjum hætti þrátt fyrir aldursgreiningu skal viðkomandi njóta vafans og vera meðhöndlaður sem barn.“

Helga Vala spurði dómsmálaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að íslensk stjórnvöld leggi af ómannúðlega aðferðir sínar í garð fylgdarlausra barna á flótta í samræmi við ákall og ráðleggingar frá fjölda stofnana hérlendis sem erlendis.

Sigríður sagði mikilvægt að hafa þetta mál til skoðunar á hverjum tíma, mál sem væri mikið álitaefni á Íslandi og um allan heim. „Þetta er auðvitað nýtt viðfangsefni fyrir okkur hér á Íslandi að hingað leiti einstaklingar sem lýsa því yfir að þeir séu börn.“

Sigríður Á. Andersen.
Sigríður Á. Andersen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sagði hún þennan hóp fara stækkandi og að það þurfi að fá staðfest um hvort raunverulega sé um börn að ræða, „vegna þess að það liggur alveg fyrir og það þarf að vera þannig að meðferð í málum einstaklinga sem eru sannarlega börn er allt annars eðlis en hinna sem ekki eru það.“

Þess vegna þurfi að skera úr um það með eins óyggjandi hætti og frekast er unnt. Sagði hún það gert hér á landi með heildstæðu mati, m.a. með læknisfræðilegu mati og viðtölum í Barnahúsi. „En hvort að það þurfi að leita annarra úrræða líka til að slá því föstu hver aldur einstaklinganna er, það er sjálfsagt að skoða það á hverjum tíma.“

Talað um börn sem viðfangsefni

Eftir þetta svar ráðherrans sagði Helga Vala „ótrúlega sorglegt“ að hlusta á dómsmálaráðherra tala um fylgdarlaus börn á flótta sem viðfangsefni. „Það verður einhvern veginn svo ótrúlega mikil fjarlægð frá því að í fangelsinu á Hólmsheiði situr nú drengur sem að aldursgreiningar segja að eigi að fá að njóta vafans.“

Benti hún á að Rauði krossinn hefði eindregið beint því til stjórnvalda að hætta að styðjast við aldursgreiningar. Þá hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna bent á að líkamsrannsóknir til aldursgreiningar séu afar umdeildar. „Engu að síður eru stjórnvöld á Íslandi með dreng í haldi  í rúmlega áttatíu daga vegna þess að íslensk stjórnvöld telja að hann sé ekki lengur barn.“

Sigríður sagðist efins um að það væri umræðunni til framdráttar að hengja sig í orðræðu sína. Hún sagði það einfaldlega staðreynd að fylgdarlaus börn væru nýtt viðfangsefni og áskorun fyrir Íslendinga og íslenska stjórnsýslu. Benti hún á að þeir einstaklingar sem væri verið að ræða um hefðu fengið að njóta vafans. „Það kemur auðvitað ekki í veg fyrir það að þeir sem hljóta hér dóm fyrir dómstólum þurfa að afplána dóma eða sæta gæsluvarðhaldi ef á þarf að halda að undangengnu mati lögregluyfirvalda og dómstóla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert