Viðreisn stöðvaði lista dómnefndarinnar

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

„Það vorum við sem rákum hana til baka vegna þess að við hefðum ekki hleypt fyrri listanum í gegn,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, á opnum fundi þingflokksins 7. júní á síðasta ári. Vísaði hún þar til lista dómnefndar yfir þá sem nefndin taldi hæfasta til þess að gegna embættum dómara við Landsrétt.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra greindi frá því á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær að hún hefði verið tilneydd að breyta lista dómnefndarinnar eftir samtöl við formenn flokkanna á þingi sem lýst hafi því yfir að listinn færi ekki óbreyttur í gegnum þingið. Jafna yrði hlutfallið á milli kynja til þess að það yrði gert. Það sama hafði Ríkisútvarpið eftir ráðherranum í frétt sinni í júní á síðasta ári.

Hanna Katrín sagði á þingflokksfundinum, samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins, að þingmenn Viðreisnar hefðu rekið Sigríði til baka með tillögu dómnefndarinnar eins og fyrr segir vegna jafnréttissjónarmiða en á honum voru tíu karlmenn og fimm konur. Listi Sigríður í kjölfar andstöðunnar við tillögu nefndarinnar innihélt átta karla og sjö konur. Breytingar dómsmálaráðherra voru þó byggðar á því að dómarareynslu var veitt meira vægi.

Björt framtíð gagnrýndi einnig lista nefndarinnar

Rætt var einnig við Benedikt Jóhannesson, þáverandi formann Viðreisnar og fjármálaráðherra, sem segist hafa gert athugasemdir við lista dómnefndarinnar þegar Sigríður hafi borið listann undir hann. „Við sögðum einfaldlega að listi sem að uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið, að við gætum ekki samþykkt hann.“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Óttarr Proppé, þáverandi formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, sagðist í svari til Ríkisútvarpsins einnig hafa viðrað áhyggjur af kynjahalla á lista dómnefndarinnar í samtali við dómsmálaráðherra. Þáverandi ríkisstjórn samanstóð af Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Bjartri framtíð.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, lýsti einnig efasemdum sínum um lista dómnefndarinnar í samtölum við fjölmiðla í ljósi kynjasamsetningarinnar á honum. Ljóst væri að verulega hallaði á konur í tillögu nefndarinnar og kallaði eftir aðgerðum til að bæta úr kynjahalla í dómarastéttinni.

Skýringar fara illa saman við fyrri ummæli

Málið kom til umræðu á Alþingi í dag í umræðum um fundarstjórn forseta þar sem þingmenn Viðreisnar kvöddu sér, ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum, hljóðs og gagnrýndu dómsmálaráðherra fyrir tillöguna sem hún lagði fyrir þingið eftir að Viðreisn hafði hafði lagst gegn tillögu dómnefndarinnar. Þar á meðal þau Hanna Katrín og Þorsteinn.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, rifjaði upp í umræðunni andstöðu Viðreisnar við lista dómnefndarinnar. Þorsteinn svaraði á þá leið að þingmenn Viðreisnar hefðu ekki verið að biðja ráðherra að fara gegn lögum heldur „að gæta þess að jafnréttissjónarmiða væri gætt, að jafnréttislög giltu um skipan dómara í þessu tilviki.

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ljóst er hins vegar að orð Þorsteins koma illa saman við þau ummæli sem Hanna Katrín og Benedikt létu falla í júní eftir samþykkt lista dómsmálaráðherra þar sem þau sögðust hafa hafnað lista dómnefndarinnar og að Viðreisn hafi gert ráðherra afturreka með listann vegna þess að þingmenn flokksins myndi ekki samþykkja hann óbreyttan.

Tillaga ráðherra þarf samþykki þingsins

Fram kemur í lögum um dómstóla að samþykki Alþingis þurfi til þess að tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómara nái fram að ganga kjósi ráðherrann að víkja frá tillögu dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómaraembætti.

Þetta kemur bæði fram í 12. grein dómstólalaganna sem og bráðabirgðaákvæði IV þar sem fjallað er um það með hvaða hætti skuli standa að málum þegar skipað er í fyrsta sinn í Landsrétt. Þannig segir orðrétt í bráðabirgðaákvæðinu:

„Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar.“

Ljóst er af bráðabirgðaákvæðinu að Sigríður hefði ekki getað komist hjá því að bera tillögu sína að skipan dómara við Landsrétt fyrir Alþingi. Jafnvel þó hún hefði ákveðið að leggja fram tillögu dómnefndarinnar óbreytta, enda er gert ráð fyrir því í ákvæðinu að samþykki þingsins þurfi óháð því hvort óbreytt tillaga hefði verið lögð fram eða vikið frá henni með einhverjum hætti.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka