Setja hundruð milljóna í meðferð kynferðisbrota

Sigríður Andersen kynnti aukið framlag í málaflokkinn á blaðamannafundi í …
Sigríður Andersen kynnti aukið framlag í málaflokkinn á blaðamannafundi í dag. Svala Ísfeld Ólafsdóttir hefur einnig verið ráðin til ráðuneytisins í tengslum við endurskoðun á lögum um kynferðisbrot. mbl.is/​Hari

Ákveðið hefur verið að leggja til 407 milljóna viðbótarfjármagn á næsta ári til eflingar á meðferð kynferðisbrota hjá löggæslu, saksóknara og dómstólum. Þar af verða tæplega 290 milljónir sem viðbótarfjármagn á ársgrundvelli til framtíðar, 40 milljónir til eins árs og 80 milljónir árlega næstu þrjú ár.  Þetta tilkynnti Sigríður Andersen dómsmálaráðherra á fundi í dómsmálaráðuneytinu í dag.

Meðal þess sem á að gera er að tryggja samræmdar áherslur á landsvísu varðandi meðferð kynferðisbrota þannig að öll lögregluembættinu á landinu séu í stakk búin að sinna rannsókn og meðferð þessara mála. Verður 237 milljónum veitt í þennan lið og mun fjárhæðin skiptast í samræmi við afbrotatölfræði embættanna á síðustu árum. Er þetta til frambúðar.

Sagði Sigríður að bætt yrði við 6 stöðugildum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, tveimur stöðugildum hjá lögreglunni á Suðurnesjum og á Norðurlandi eystra, en að í öðrum embættum lögreglunnar yrði bætt við einu stöðugildi. Samtals 16 stöðugildi.

Verður meðal annars fjórum stöðugildum bætt við hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til að stytta málsmeðferðartíma embættisins, en mikill meirihluti mála sem koma upp á landinu í þessum málaflokki eru á höfuðborgarsvæðinu.

Hjá embætti Héraðssaksóknara verður 50 milljónum varið til að fjölga stöðugildum sem sinna meðferð kynferðisbrota. Endurmenntun og fræðsla innan réttarvörslukerfisins verður einnig aukin.

40 milljónir fara í að uppfæra verklagsreglur og rannsóknarbúnað hjá lögreglunni til að mæta áherslum sem fram koma í aðgerðaáætlun sem unnin var um meðferð kynferðisbrota af hálfu ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, lögreglunni, dómstólaráði, lögmannafélagi Íslands og neyðarmótöku Landspítalans.

Þá er einnig 240 milljónum varið í að tryggja skilvirkt og öruggt gagnaflæði milli lögreglu og ákæruvalds ásamt miðlun gagna milli ákæruvalds og dómstóla og milli lögmanna og réttargæslumanna sem koma að málum. Verður fjármagninu skipt á næstu þrjú ár.

Að lokum var tilkynnt að Svala Ísfeld Ólafsdóttir hefði verið ráðin til ráðuneytisins í tengslum við endurskoðun á lögum um kynferðisbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert