„Fólkið í landinu sem tapar“

Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ásamt lögmanni Stundarinnar …
Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ásamt lögmanni Stundarinnar við dómsuppkvaðningu í dag. mbl.is/​Hari

Þrátt fyrir að hafa unnið lögbannsmál Glitnis Holdco gegn Stundinni og Reykjavík Media segja ritstjórar Stundarinnar að sigurinn sé ekki fullunninn meðan áfrýjunarfrestur er ekki liðinn. Miðlarnir sæta í raun enn lögbanni þangað til og geta ekki haldið áfram umfjöllun sinni sem byggði á gögnum sem komu innan úr Glitni.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, sagði við mbl.is eftir að dómurinn féll að þótt þau hafi unnið málið muni lögbannið vera í gildi næstu þrjár vikur. „Sigurinn er ekki fullunninn meðan við sætum enn lögbanni.“

Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri og hinn ritstjóri miðilsins, segir að nú sé það Glitnir Holdco, þrotabú fallna bankans, sem ákveði með framhald málsins. „Það er fyrst og fremst fólki í landinu sem tapar að því sé meinað að fá upplýsingar um hagsmunaárekstra og hagsmuni helsta áhrifafólks landsins og það skömmu fyrir kosningar með einhverju langvarandi banni sem gæti varað í ár í viðbót ef Glitnir þrotabúið ákveður að hafa það þannig með áfrýjun,“ segir Jón Trausti.

Báðum miðlum voru dæmdar 1,2 milljónir í málskostnað. Jón Trausti segir að erfitt sé að sjá að sú upphæð muni ná utan um allan kostnað miðilsins við vörnina í málinu. „Við getum ekki tekið mikla áhættu með að lágmarka vörn okkar. Í víðara samhengi, fyrir aðra fjölmiðla, framtíðina og fordæmin verðum við að leggja upp í alvöru vörn,“ sagði hann og bætti við að miðillinn væri lítill og tími starfsfólks hafi að miklu marki farið í þetta mál. „Við fáum það ekki bætt með málskostnaði.“

Fram hafði komið í fjölmiðlum eftir að sýslumaður samþykkti lögbannið að Stundin hefði stefnt að frekari umfjöllun. Ingibjörg segir að ef lögbannið falli úr gildi muni Stundin birta fleiri fréttir tengdar málinu. „Við vorum náttúrulega að vinna fréttir þegar við vorum stöðvuð. Þurfum að sjá hvaða fréttir eiga sama erindi í dag og þær áttu á sínum tíma. Munum meta það og skoða. Auðvitað einhverjar fréttir sem við munum líklega birta í kjölfarið þegar og ef þessu linnir einhvern tímann.“

mbl.is/​Hari

Jón Trausti bendir þó á að horfa verði í aðstæður þegar og ef lögbannið fellur niður. Þannig geti niðurstaða fyrir Landsrétti, ef Glitnir ákveður að áfrýja málinu, legið fyrir eins seint og á næsta ári. Segir hann að spyrja verði sig hvort þetta verði orðnir sögulegir hlutir þegar þar að kemur.

Segir hann að Íslendingar verði að spyrja sig hvort eðlilegt sé að hægt sé að nota fyrirbyggjandi valdbeitingu til að stöðva fjölmiðlaumfjöllun. „Það er ekki samræmi við takmark okkar sem framsækið vestrænt lýðræðisríki að geta sett á fyrirbyggjandi bann og koma á fyrirbyggjandi valdbeitingu gegn fjölmiðlum, hvað þá í umfjöllun um helsta áhrifafólk samfélagsins í viðskiptum og stjórnmálum og hagsmuni þess fólks. Við hljótum þá að tapa trúverðugleikanum almennt þar sem þetta er meira það sem fólk er að glíma við í ákveðnum ríkjum í A-Evrópu og víðar þar sem settar eru hömlur á tjáningarfrelsið,“ segir Jón Trausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert