Hættu við Akureyrarflug vegna hótelleysis

Fyrsta beina flug Super Break, breskrar ferðaskrifstofu, frá Englandi til …
Fyrsta beina flug Super Break, breskrar ferðaskrifstofu, frá Englandi til Akureyrar með breska ferðamenn, um miðjan janúar. 14 vélar koma í janúar og febrúar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Breska ferðaskrifstofan Super Break sem hefur í vetur verið með beint flug tvisvar í viku frá Bretlandi til Akureyrar hefur hætt við áform sín um beint sumarflug til höfuðstaðar Norðurlands. Ástæðan er þó ekki lélegar viðtökur farþega eða vandamál í flugi, heldur einfaldlega að ekki er hægt að tryggja nægjanlegt gistirými á Akureyri og nágrenni.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, staðfestir við mbl.is að ferðaskrifstofan hafi hætt við sumaráformin, en Vikudagur sagði fyrst frá málinu. Segir Arnheiður að í raun sé ekki hægt að segja að þetta séu slæmar fréttir. „Það er jákvætt að það sé svona mikið að gera hjá ferðaþjónustuaðilum,“ segir hún og bætir við að félagið hafi ætlaði að vera með sex flug í sumar, en fyrirvarinn hafi verið of stuttur.

Félagið byrjaði að skoða möguleikann á sumarflugi eftir að vetrarflug ferðaskrifstofunnar naut mikilla vinsælda. Það hafi hins vegar fyrst verið í lok nóvember eða byrjun desember og því hafi fyrirvarinn verið nokkuð stuttur.

Ferðaskrifstofan er aftur á móti búin að setja 22 flug á áætlun frá og með næsta desember, en í vetur verða farin samtals 14 flug. „Það er því enginn bylbugur á þeim þrátt fyrir að tvö flug hafi endað í Keflavík,“ segir Arnheiður og vísar þar til þess að vegna veðurs hafi tvö flug félagsins nú í janúar endað í Keflavík í stað Akureyri. Voru farþegar keyrðir þaðan norður yfir heiðar.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands,
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands, Ljósmynd/Aðsend

Arnheiður segir að enn sé nægt pláss fyrir ferðamenn á Norðurlandi og þá hafi markaðsskrifstofan bent Super Break og öðrum ferðaskrifstofum sem hafi skoðað flug í sumar að hægt sé að finna gistingu á Siglufirði, Sauðárkróki, við Mývatn og á Hvammstanga svo dæmi séu tekin. Aftur á móti vilji ferðaskrifstofur fyrst horfa á höfuðstaðinn þangað sem er flogið þegar nýir áfangastaðir eru að koma á kortið.

Hún segir að á ferðaráðstefnum í vetur hafi komið í ljós að krafa ferðaþjónustuaðila sé á frekari hóteluppbyggingu á Norðurlandi til að anna þessari eftirspurn. „Það er óhætt að segja að þetta beina flug sem er komið og væntanleg fjölgun ferðamanna samhliða því kallar á uppbyggingu,“ segir Arnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert