Samþykktu að leyfa gæludýr í strætó

Stjórn Strætó bs. hefur samþykkt að leyfa gæludýr í strætó.
Stjórn Strætó bs. hefur samþykkt að leyfa gæludýr í strætó. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Stjórn strætó bs. Hefur samþykkt að leyfa farþegum að taka gæludýr með sér í strætó. Ákvörðunin var samþykkt einróma á stjórnarfundi fyrirtækisins í dag. Ekki hefur verið ákveðið nákvæmlega hvenær leyfið tekur gildi.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Heiðari Helgasyni, markaðs- og upplýsingafulltrúa Strætó, var einróma sátt um að prófa að leyfa gæludýr í strætó til eins árs.

Ráðuneyti um­hverf­is- og auðlinda­mála féllst fyrr í vikunni á að veita Strætó und­anþágu í ár frá banni við því að dýr séu flutt í al­menn­um farþega­rým­um sam­göngu­tækja að und­an­skild­um hjálp­ar­hund­um.

Frétt mbl.is: Gæludýr í strætisvagna?

„Næstu skref eru að uppfylla ákveðin skilyrði sem ráðuneytið setti fyrir okkur. Við þurfum að setja ýmsar merkingar og skoða þrif á vögnunum betur,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Meðal skilyrða frá ráðuneytinu má nefna að leyfið gildir einungis fyrir höfuðborgarsvæðið og vagnar sem verða notaðir í verkefnið skulu þrifnir sérstaklega vel í lok dags.

Málið er því í undirbúningi en ekki er ljóst hvenær fyrstu gæludýrin geta komist leiðar sinnar með strætó. Leyfið nær til hunda, katta, nagdýra, fugla, kanína, froska, skrautfiska, skriðdýra og skordýra svo framarlega sem dýrin eru leyfð hérlendis sem gæludýr. Öll dýrin verða að vera í búrum eða töskum, að undanskildum hundum, sem mega vera í ól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert