Skimað betur fyrir kynferðisbrotum

Vandað við val þeirra sem vinna með börnum á velferðarsviði …
Vandað við val þeirra sem vinna með börnum á velferðarsviði og fólk þarf m.a. að heimila að upplýsinga um það sé leitað úr sakakskrá. Þá taka félagsráðgjafar börnin í viðtöl þar sem farið er yfir líðan þeirra. mbl.is/ Heiðar Kristjánsson

„Úrræði í barnaverndarmálum hafa mjög mikið byggst á trausti, og þetta er nokkuð sem ég er hugsi yfir í ljósi síðustu atburða,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Algengt sé að einn starfsmaður sé að vinna með einu barni.

Mikið hefur verið fjallað í vikunni um mál karlmanns sem var starfsmaður á vistheimilum Reykjavíkurborgar um áratugaskeið og sem situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa misnotað dreng hvers foreldrar höfðu ráðið hann sem stuðningsfulltrúa fyrir. Lögreglan rannsakar nú brot mannsins gegn sjö þolendum, en greint hefur verið frá því að tilkynnt hafi verið um manninn í þrígang frá 2002 án þess að upplýsingar um það sé að finna hjá barnaverndaryfirvöldum.

„Velferðarráð er búið að samþykkja að hefja strax í næstu viku ákveðna áhættugreiningu í samstarfi við innri endurskoðun til að draga úr líkum á að svona nokkuð geti gerst,“ segir Regína og kveður starfsemina verða endurskoðaða með þetta í huga. Einnig sé að fara í gang viðamikil úttekt á starfsemi og skipulagi barnaverndar en sú úttekt var ákveðin áður en þetta mál kom upp.

Verði skimað reglulega fyrir kynferðisofbeldi

Um 2.500 manns starfa á velferðarsviði Reykjavíkur og þar af starfa 88 manns á þeim hluta sviðsins sem snýr að barnavernd. 44 eru á skrifstofu Barnaverndar, 20 starfa á Laugarásvegi, 17 í Hraunbergi og 7 eru í stuðningsþjónustu.

„Það líður öllum illa sem eru að vinna í þessu núna. Það er fullt af frábæru fólki sem er að vinna á velferðarsviði og fólki líður eðlilega illa með að frétta að kollegi þess sé sakaður um svona brot.“

„Að mínu mati er ekki nægjanlegt að fólk sem kannski …
„Að mínu mati er ekki nægjanlegt að fólk sem kannski vinnur með börnum um margra ára skeið sé bara skoðað þegar það er ráðið til starfa. Það þarf að gera þetta með reglubundnum hætti,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

„Þetta er mikið áfall þegar svona kemur upp,“ bætir hún við. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fyrirbyggja að svona gerist.“

Regína segir vandað við val þeirra sem vinna með börnum og  fólk þarf m.a. að heimila að upplýsinga um það sé leitað úr sakaskrá. Áður var sakavottorði framvísað og er því í dag um að ræða ríkari heimild sem kom með lögum frá 2002.

 „Það er almennt eftirlit með þessum börnum,“ segir hún og kveður félagsráðgjafa taka börnin í viðtöl og mörg séu einnig í reglubundnum viðtölum hjá sálfræðingum. „Þar er farið yfir líðan þeirra og aðstæður. Eitt af því sem við munum hins vegar skoða í kjölfar þessa máls er að skima betur en gert er í dag fyrir kynferðisofbeldi.“ Regína útskýrir að þetta sé hægt að gera með ákveðnum spurningum sem lagðar verði fyrir börnin.

Ekki nóg að skoða fólk bara þegar það er ráðið til starfa

Fram hefur komið að maðurinn sem nú er í gæsluvarðhaldi átti stutta atvinnusögu að baki er hann hóf störf hjá Reykjavíkurborg undir lok síðustu aldar. Spurð hvort athuganir séu gerðar á starfsfólki eftir að það hefur störf, segir Regína að árið 2012 hafi öllum sem unnu með börnum og unglingum verið gert að endurnýja heimild um að það mætti skoða upplýsingar um þá í sakaskrá. „Við munum setja það inn í reglur núna að það verði gert oftar og með reglubundnari hætti,“ segir hún.

„Að mínu mati er ekki nægjanlegt að fólk sem kannski vinnur með börnum um margra ára skeið sé  bara skoðað þegar það er ráðið til starfa. Það þarf að gera þetta með reglubundnum hætti. Við erum að skoða lagaheimildina fyrir því núna, því það er vilji okkar til að gera þetta.“

Spurð hvaða augum velferðarsvið líti þær fréttir að tilkynnt hafi verið um manninn áður en rannsókn hófst nú í janúar, segir hún það hörmuleg mistök. „Þetta er áfall fyrir okkur og við veljum að trúa því að þetta hafi gerst og erum að fara yfir þessi mál,“ segir Regína.

Engin af núverandi stjórnendum hjá Barnavernd kannist við að hafa fengið tilkynningarnar, en verið sé að velta við öllum steinum í þessu máli. „Þetta er eitt af þeim úrræðum sem við munum grípa til að auðvelda boðleiðir og aðgengi þannig að það enginn vafi leiki á því að þegar fólk hringir inn með svona upplýsingar að þá berist þær alla leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert