„Við treystum ráðherranum“

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og fulltrúi flokksins í stjórnskipunar- …
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og fulltrúi flokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segir að í erfiðum og umdeildum málum sé áríðandi að allt sé uppi á borðum. Slíkt hafi ekki verið raunin í Landsréttarmálinu. mbl.is/Eggert

„Það er nú fráleit söguskýring að varpa þessu yfir á Viðreisn,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og fulltrúi flokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, um frétt mbl.is frá í gær þar sem orð þingflokksformanns og fyrrverandi formanns flokksins um skipan dómara við Landsrétt voru rifjuð upp. Þingflokksformaðurinn Hanna Katrín Friðriksson sagði á fundi í júní að þingmenn Viðreisnar hefðu ekki hleypt lista dómnefndar „í gegn“ og Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar, sagðist hafa gert athugasemdir við listann þar sem hann uppfyllti ekki jafnréttissjónarmið. Hann hefði sagt Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra að „við gætum ekki samþykkt hann“.

Forsaga málsins er sú að Sigríður bar lista dómnefndarinnar um þá sem nefndin taldi hæfasta til að gegna embættum dómara við Landsrétt  undir formenn flokkanna. Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nú í vikunni sagðist hún í kjölfarið hafa verið tilneydd til að breyta lista dómnefndarinnar. Listinn sem hún svo lagði fram, og var samþykktur á þingi með atkvæðum 31 þingmanns, þar á meðal allra þingmanna Viðreisnar, var með jafnari kynjahlutföll; átta karla og sjö konur en á lista dómnefndarinnar höfðu verið tíu karlar og fimm konur. Sigríður hafði þannig fjölgað konum í tillögu sinni en breytingar hennar snérust þó ekki eingöngu um að færa konur upp listann og karla niður.

Málsmeðferðin andstæð stjórnsýslulögum

 Tveir umsækjendur um stöðuna höfðuðu mál á hendur ríkinu og var það niðurstaða Hæstaréttar  að dómsmálaráðherra hefði brotið gegn rannsóknareglu stjórnsýslulaga þegar hún vék frá niðurstöðu matsnefndar við skipun dómara í Landsrétt og gekk framhjá fjórum umsækjendum.

Jón Steindór segir að vissulega hafi Viðreisn látið jafnréttissjónarmið sín í ljós er listi dómnefndarinnar lá fyrir. Síðan hafi Sigríður lagt fram nýjan lista og sá listi hafi verið á hennar ábyrgð að sögn Jóns Steindórs. „Reyndar hefur nú dómsmálaráðherrann ítrekað lýst því að hún hafi einmitt ekki verið að taka tillit til jafnréttissjónarmiða heldur hafi hún kosið að líta meira til dómarareynslu [en nefndin gerði] og það hafi leitt til niðurstöðunnar.“

Sigríður Á. Andersen sat fyrir svörum á opnum fundi stjórnskipunar- …
Sigríður Á. Andersen sat fyrir svörum á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í fyrradag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir því sérkennilegt á þessu stigi að halda því fram að jafnréttiskrafa Viðreisnar hafi ein orðið til þess að listanum var breytt. „Það má líka spyrja sig hvort ráðherrann hefði lagt fram óbreyttan lista ef Viðreisn hefði ekki talað? Er það málið? Var afl Viðreisnar svona mikið? Það er ástæða til að inna ráðherrann eftir svörum við því.“

Jafnréttiskrafan skýr

Spurður hvort ekki sé rétt að þingmenn Viðreisnar hafi beinlínis sagt að þeir myndu ekki samþykkja óbreyttan lista dómnefndarinnar, svarar Jón Steindór því til að það hafi vissulega verið skýr krafa flokksins að jafnréttissjónarmiða yrði gætt og að ráðherrann hefði verið beðinn um skoða listann með tilliti til þeirra. „Okkur þótti ekki bragur á því að nýr dómstóll væri með kynjahalla.“

- Hefði hún lagt listann fram óbreyttan, hefðuð þið greitt atkvæði með honum?

„Það er mjög erfitt að svara því eftir á einfaldlega vegna þess að þegar við svo fengum nýjan lista frá ráðherranum í hendur þá treystum við því sem hann sagði. Þegar allt þetta mál var til umræðu í þinginu og í þingnefndum þá fullvissaði ráðherra okkur og gaf okkur skýr og afdráttarlaus svör þar um  að búið væri að rannsaka málið nægilega.“

Hann segir að vissulega sé alltaf hægt að vera vitur eftir á. „En hún fullyrti þetta og við treystum ráðherranum.“

Studdi tillögu með „ráðum og dáð“

Jón Steindór segist sjálfur hafa stutt tillögu ráðherrans „með ráðum og dáð“ í þinginu. „Þess vegna veldur það mér miklum vonbrigðum að komast að því, nú þegar þessi nýju gögn hafa komið fram, að ráðherra fór gegn ráðleggingum sérfræðinga sinna í stjórnkerfinu og upplýsti á engan hátt þingið, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða samstarfsflokka sína, um það. Að okkar mati setur það þetta mál í algjörlega nýtt ljós.“

- Gerðuð þið einhverjar athugasemdir við val hennar á þeim nöfnum sem voru svo í hennar tillögu að skipan dómara?

„Nei. Við vorum ekki með skoðanir á þeim einstaklingum sem þar voru. Við töldum að þetta væri allt saman gert samkvæmt bókinni og að dómarareynslan hefði ráðið. Við treystum þeim orðum ráðherrans en það traust virðist ekki hafa verið alveg verðskuldað.“

- Þannig að þið hafið ekki haft efasemdir um að þessi breyting væri ekki í samræmi við lög?

„Auðvitað heyrðum við efasemdir, það var rætt af gestum sem komu fyrir nefndina og í þinginu. Af þeim sökum hefði hún átt á þeim tímapunkti að upplýsa um [ráðleggingar sérfræðinga sinna]. Það gerði hún ekki. Við, samstarfsflokkur í ríkisstjórn, trúðum því sem ráðherrann sagði, að þetta væri með fullnægjandi hætti gert. Í ljósi þess að hún lagði ekki öll spilin á borðið þá setur það samskipti þings og ráðherra algjörlega í nýtt ljós.“

Myndi lama þingið

Hann segir ómögulegt að ætlast til þess að flokkar eða einstakir þingmenn leggist í rannsóknarvinnu í sérhvert sinn sem ráðherra leggur fram tillögur. „Það myndi einfaldlega lama þingið og kerfið. Stjórnskipun okkar er með þeim hætti að almennt talað verður þingið að reiða sig á að ráðherrar fari að lögum og sinni sínum skyldum fullkomlega.“

Jón Steindór bendir á að í umdeildum og erfiðum máli sé sérstaklega áríðandi að allt sé uppi á borðum strax frá upphafi. „Það var því miður ekki svo í þessu tilviki.“

Hann segir að svo virðist sem skipun dómara sé gerð án mikilla átaka í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Öðru sé að heilsa hér á landi. „Þá spyr maður sig hvaða þættir eru að hafa áhrif á að þetta gengur svona illa. Ég kann svo sem ekki að svara því en þetta einstaka mál sýnir að það þarf að gera breytingar á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert