„Bjóst ekki við viðbrögðum frá rabbínum“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

„Ég gerði mér grein fyrir því að þetta mál myndi vekja athygli hér á Íslandi en ég bjóst ekki við viðbrögðum frá rabbínum í útlöndum,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. 

Trú­ar­leiðtog­ar gyðinga í Evr­ópu eru ósátt­ir við laga­frum­varp Silju Dagg­ar og átta annarra þing­manna um að umsk­urður barna al­mennt verði bannaður með lög­um að viðlagðri fang­els­is­refs­ingu í stað þess að slíkt bann nái aðeins til stúlkna eins og nú er raun­in.

„Ég hef fengið mjög góð viðbrögð hérna heima og þetta mál er ekki bundið við neina pólitík. Ég held að Íslendingar horfi á þetta sem barnaverndarmál og það er ástæðan fyrir því að ég legg þetta fram.“

Silja Dögg segist alls ekki vilja tengja málið við trúarbrögð, það eigi fyrst og fremst að snúast um barnavernd. „Löggjafinn á að gæta sérstaklega að réttindum barna vegna þess að þau geta ekki varið sig gegn ofbeldi.“

Hún segir að umskurður sé frekar tengdur menningu en trúarbrögðum og nefnir sem dæmi að umskurður sé algengur í sumum kristnum löndum.  

Silja Dögg birti bréf á Facebook í gær sem ísraelskur gyðingur sendi henni og meðflutningsmönnum hennar. Í bréfinu segir hann að á meðal gyðinga og Ísraela sé vaxandi hreyfing gegn umskurði. „Hann sjálfur ákvað að umskera ekki drenginn sinn og hvatti okkur til dáða,“ segir Silja Dögg. 

„Ég hef ekki fengið bréf frá rabbínum eða erlendum samtökum og satt að segja er mér alveg sama. Þetta snýst um barnavernd númer eitt, tvö, þrjú og fjögur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina