„Mér fannst ég hafa brugðist honum“

Móðir drengsins segir hann lengi hafa verið reiðan út í …
Móðir drengsins segir hann lengi hafa verið reiðan út í sig fyrir að hafa treyst manninum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Loksins þegar hann var tilbúinn ákvað hann að kæra. Hann varð fyrst og fremst að vera tilbúinn. Það var ekki nóg að við værum tilbúin. Við virtum það. Hann er mjög jákvæður núna og er ótrúlega sterkur drengur.“ Þetta segir móðir drengs sem varð fyrir kynferðisofbeldi af hálfu stuðningsfulltrúa síns, starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur, þegar hann var barn. Drengurinn sem um ræðir er rúmlega tvítugur í dag og hefur verið að vinna úr ofbeldinu síðustu ár.

„Þetta er búið að vera rosalega erfitt en er að skila sér núna. Maður sér mikinn mun á honum, hvað hann er kominn langt. Svo er bara að vona að þessi maður verði stöðvaður og hann fái aldrei að vinna með börnum aftur. Ég vona að hann fái dóm,“ segir móðirin.

Maðurinn sem um ræðir er á fimmtugsaldri, fyrrverandi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá því 19. janúar síðastliðinn, grunaður um kynferðisbrot gagnvart nokkrum börnum. Samkvæmt heimildum mbl.is hótaði hann börnunum meðal annars með því að sem starfsmaður Barnaverndar gæti hann séð til þess að þau yrði tekin frá foreldrum sínum segðu þau frá ofbeldinu.

„Hann var góði frændinn“

Sonur konunnar, sem maðurinn á að hafa misnotað á árunum 2004 til 2010, kærði hann fyrir kynferðisbrot í ágúst síðastliðnum. Málið var þó ekki tekið til skoðunar hjá lögreglu fyrr en í desember, fimm mánuðum eftir að kæran var lögð fram, eftir að réttargæslumaður drengsins hafði ítrekað sent fyrirspurnir um stöðu málsins til lögreglu. Þeim var hins vegar aldrei svarað.

Drengurinn var á áttunda ári þegar meint misnotkun hófst og hún hætti ekki fyrr en hann var 14 ára, en maðurinn var stuðningsfulltrúi hans, líkt og áður sagði. Drengurinn dvaldi reglulega á heimili á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík sem maðurinn hafði umsjón með. Að jafnaði dvöldu þar nokkur börn í senn en maðurinn hafði búsetu á heimilinu. Tvö systkini drengsins dvöldu einnig um tíma á heimilinu og er hann talinn hafa brotið gegn þeim líka.

Móðir drengsins segir manninn einnig hafa komið með litla frændur og frænkur og jafnvel vini inn á heimilið. Þannig að það var alltaf barnastóðið í kringum hann. „Hann leyfði þeim að fara í tölvur og keypti nammi. Hann var góði frændinn, leyfði börnunum að gera það sem við foreldarnir leyfum ekki. Hann vann sér inn traust þeirra,“ segir hún.

Var algjörlega dofin þegar sonurinn sagði frá

„Við kynntumst honum í gegnum annað fólk, þannig að hann var í raun fjölskylduvinur og mig grunaði ekki að hann væri að gera svona við börn. Það var mikið af börnum í kringum hann og það var mjög erfitt fyrir mig að trúa þessu þegar drengurinn sagði mér fyrst frá þessu. Það tók mig langan tíma að átta mig á orðunum sem hann sagði, ég var algjörlega dofin,“ segir hún en sonur hennar var á sextánda ári þegar hann treysti sér til að segja henni frá því sem hafði gerst. „Mér fannst ég hafa brugðist honum,“ bætir hún við.

Drengurinn vildi ekki að fleiri fengju vitneskju um ofbeldið strax, ekki einu sinni faðir hans. Þá þvertók hann fyrir að barnavernd yrði gert viðvart.

„Ég gaf honum loforð. Ég gaf honum loforð um að tilkynna þetta ekki til barnaverndar þá, þar sem maðurinn starfaði. Hann sagðist annars ætla að láta sig hverfa, taka sitt eigið líf. „Ég tók ákvörðun þá um að ég myndi hlusta á barnið mitt. Ég hafði treyst þessum manni sem vann fyrir barnavernd og ég vissi að það væri þá ekki ekki hægt að treysta fólkinu hans. Ég ætlaði ekki að taka sénsinn að barnið mitt færi að taka sitt eigið líf.“

Skiptust á að sofa uppi í rúmi hjá honum 

Samkvæmt heimildum mbl.is vildi maðurinn að börnin skiptust á að sofa uppi í rúmi hjá honum, á heimilinu þar sem drengurinn dvaldi, en þar átti misnotkunin sér gjarnan stað. Sömu heimildir herma að maðurinn hafi nauðgað börnunum og snert þau á óviðeigandi hátt eftir að hafa byrlað þeim svefnlyf, sem hann sagði vera hóstamixtúru. Maðurinn mun einnig hafa farið með börn í bílferðir út á land og misnotað þau í þeim ferðum.

Samkvæmt heimildum virtust vera miklir peningar í umferð á heimilinu. Móðir drengsins kannast við þær lýsingar. „Drengurinn sagði okkur að hann hefði verið með stóran peningaskáp inni í herberginu sínu og sá hann oft setja mikla peninga þar inn.“

Börnin munu hafa haft ótakmarkað aðgengi að tölvum og tölvuleikjum á heimilinu, fyrir utan eina tölvu sem eingöngu maðurinn mátti fara í. Hún var alltaf læst, en við hana mun hafa verið tengdur einhvers konar myndavélabúnaður. Móðir drengsins segir hann muna eftir því að þegar hann var hálfmeðvitundarlaus hafi hann séð eins og flass á myndavél, líkt og gerandinn væri að taka myndir af honum.

Starfaði áfram með börnum þrátt fyrir kærur

Maðurinn hefur starfað með börnum og unglingum nánast alla sína starfsævi, en nú síðast starfaði hann á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti sem Barnavernd Reykjavíkur rekur. Hann hóf þar störf árið 2010 og starfaði þar þegar hann var handtekinn. Hann starfaði því áfram með börnum næstum sex mánuði eftir að kæra var lögð fram á hendur honum fyrir gróf kynferðisbrot gagnvart börnum. Lögregla gerði barnavernd ekki viðvart þegar málið var fyrst tekið til rannsóknar í desember, en þá var tekin skýrsla af drengnum og réttargæslumaður hans gerði lögreglu grein fyrir því að maðurinn starfaði með börnum. Það var ekki fyrr en í janúar, nokkrum dögum áður en maðurinn var handtekinn, að vinnuveitandi hans fékk upplýsingar um málið.

Þetta var hins vegar ekki í fyrsta skipti sem yfirvöld fengu vitneskju um meint brot mannsins og að hann starfaði enn með börnum. Árið 2013 var hann einnig kærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, en þau brot voru talin fyrnd þannig að málið var fellt niður. Þá fékk Barnavernd Reykjavíkur ábendingu um meint brot mannsins árið 2008. Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, sagði í fréttum RÚV í hádeginu í gær að hún hefði fengið það staðfest hjá aðila sem málinu tengist að hann hafi hringt í barnavernd og tilkynnt manninn. Þá voru drengirnir hins vegar orðnir fullorðnir og málið því í raun ekki barnaverndarmál. Hún sagði að það hefði engu að síður verið rétt að taka móti tilkynningu um að maður sem starfaði með börnum hefði hugsanlega gerst brotlegur og kanna málið með þeim hætti. Aðspurð sagðist hún ekki vita hvers vegna það var ekki gert. Verið er að rannsaka hvert tilkynningin barst og hvers vegna málið fór ekki lengra.

„Hann var lengi reiður út í mig“

Móðir drengsins sem lagði fram kæruna í haust hjálpaði syni sínum eins og hún gat fyrstu árin eftir að hann greindi henni frá ofbeldinu. Reyndu þau í sameiningu að vinna úr sársaukanum og vanlíðaninni sem hann upplifði í kjölfar ofbeldisins. Sú vinna þokaðist hægt áfram. Þegar hann var 18 ára leituðu þau til Stígamóta og fengu aðstoð frá sálfræðingum. „Ég var inni með honum í öllum tímum, sat og hlustaði því hann treysti engum. Ég brást honum á sínum tíma, sem móðir hans, hann var því lengi reiður út í mig. Svo áttaði hann sig á því þegar hann var kominn yfir ákveðinn hjalla að þrátt fyrir að ég hafi treyst þessum manni þá bæri ég ekki ábyrgð á því sem hann gerði. Hann er er búinn að fyrirgefa mér fyrir að hafa treyst þessum manni. Ég skil alveg hvernig hann hugsar, það er ósköp eðlilegt,“ segir móðirin einlæg.

 „Svo þegar honum fannst hann tilbúinn, 19 ára gamall, þá ætlaði hann að kæra. Við fórum niður á lögreglustöð en ég stoppaði hann af, sagði við hann að hann væri ekki tilbúinn, ég fann að hann þyrfti að vinna betur í sjálfum sér.“ Hún gekk hins vegar sjálf inn á lögreglustöðina og ræddi við lögreglumenn, sagði þeim frá því sem hafði gerst. Gaf upp nafnið á syni sínum og gerandanum og greindi frá því að hann starfaði með börnum. Hún gat hins vegar ekki kært fyrir hönd sonar síns því hann var orðinn lögráða. Þetta var árið 2015, tveimur árum eftir að maðurinn hafði verið kærður fyrir kynferðisbrot gagnvart barni. Lögregla hafði því fengið tvær tilkynningar um manninn þegar drengurinn lagði fram kæruna á hendur honum í ágúst síðastliðnum.

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hefur viðurkennt að mistök hafi verið gerð og er það nú til skoðunar hvað kunni að hafa farið úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á meintum kynferðisbrotum mannsins. 39 einstaklingar hafa nú komið í skýrslutöku hjá lögreglunni í þágu rannsóknarinnar, þar af sjö brotaþolar. Maðurinn var í gær úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 9. febrúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert