Frá brenndum kjötbollum á ólympíuleika

Ásdís Björgvinsdóttir tók þátt í ólympíuleikum ungkokka sem fram fóru …
Ásdís Björgvinsdóttir tók þátt í ólympíuleikum ungkokka sem fram fóru á Indlandi í vikunni. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Ásdís Björgvinsdóttir brenndi kjötbollur og sósan hljóp í kekki á hellunni heima hjá henni leit hún á það sem tækifæri til að fara í kokkanám, en hún hefur alltaf haft áhuga á matreiðslu. Í dag, rúmlega fjórum árum seinna, komst hún í ellefu manna úrslit á ólympíuleikum ungkokka, sem fram fóru á Indlandi í síðustu viku og lauk í gær.

Nýútskrifaði kokkurinn Ásdís Björgvinsdótir ásamt Sigurði Daða Friðrikssyni, kennara sínum …
Nýútskrifaði kokkurinn Ásdís Björgvinsdótir ásamt Sigurði Daða Friðrikssyni, kennara sínum í matvælagreinum við Menntaskólann í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís stundar nám í matreiðslu við Menntaskólann í Kópavogi og í nóvember var henni boðið að taka þátt í ólympíuleikunum á vegum skólans. Boð um að taka þátt í keppni eins og þessari eru álitin verðlaun fyrir góðan námsárangur. „Kennararnir mínir drógu mig út úr kennslustund og buðu mér að taka þátt. Ég hafði einn dag til að ákveða mig,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is. Hún ákvað að slá til, enda býr hún að töluverðri keppnisreynslu og hefur meðal annars keppt í Norrænu nemakeppninni í Finnlandi.

Hún vissi hins vegar ekkert hvað hún væri að fara út í og hafði ekki hugmynd um hversu stór keppnin væri. Með henni í för var Sigurður Daði Friðriksson, kennari í matvælagreinum við Menntaskólann í Kópavogi. Keppnin var haldin í þremur borgum á Indlandi.

Beint í sjónvarpsviðtal eftir 24 tíma ferðalag

„Við lentum í Delhi klukkan sjö um morguninn 27. janúar og fórum strax í sjónvarpsviðtöl og á blaðamannafundi,“ segir Ásdís, sem hafði þá verið á ferðalagi í rúman sólarhring. Beint eftir viðtölin tók við undirbúningur fyrir opnunarhátíðina sem fór fram um kvöldið. Dagskráin alla keppnisdagana var þétt skipuð. „Það var enginn frítími. Morguninn eftir vöknuðum við klukkan 5 og flugum til Bangalore þar sem fyrsti hluti keppninnar fór fram. Þá þurftum við að framkvæma uppskriftir frá skipuleggjendum keppninnar,“ segir Ásdís. 

Ásdís ásamt fulltrúum annarra ríkja á ólympíuleikum ungkokka.
Ásdís ásamt fulltrúum annarra ríkja á ólympíuleikum ungkokka. Ljósmynd/Aðsend

50 ríki sendu þátttakendur í keppnina, og komst Ásdís áfram í næstu umferð sem fór fram í Kolkata. Keppnin var mjög stór í sniðum og segir Ásdís að um 2.000 nemendur úr Hótelskólanum sem hélt utan um keppnina aðstoðuðu keppendurna á meðan keppninni stóð. „Þeir báru meira að segja töskurnar okkar.“

Þriggja rétta vegan-máltíð úr asísku hráefni

Í annarri umferð keppninnar þurfti Ásdís að vinna með grænmeti og útbúa þriggja rétta vegan- og grænmetismáltíð úr asísku hráefni. Ásdís hafði aðeins búið sig undir þennan hluta keppninnar á Íslandi, en reyndar ekki fyrr en hún hafði lokið sveinsprófinu í desember. „Ég byrjaði að undirbúa mig í janúar og fór meðal annars í alls konar asískar búðir hér heima til að finna grænmeti sem ég hafði aldrei unnið með áður.“ Það skilaði svo sannarlega árangri því Ásdís komst í ellefu manna úrslit.

Ásdís komst í úrslit ásamt tíu öðrum kokkum.
Ásdís komst í úrslit ásamt tíu öðrum kokkum. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir lokaréttinn var keppendum úthlutað leynihráefni sem þeir þurftu að vinna með. Indverska kryddjurtin túrmerik varð fyrir vali dómnefndarinnar. „Við þurftum að nota það í réttinn og fórum einnig í viðtal hjá lækni þar sem við áttum að segja honum frá kostum túrmeriks í matargerð í læknisfræðilegum tilgangi,“ segir Ásdís.  

Ásdís náði glæsilegum árangri.
Ásdís náði glæsilegum árangri. Ljósmynd/Aðsend

Úrslitakvöldið líkt og að vera í Bollywood-kvikmynd

Úrslitakvöldið var afar glæsilegt og lýsir Ásdís upplifuninni eins og að vera stödd í Bollywood-kvikmynd. „Allir keppendurnir sátu uppi á sviði og söngvari sá um að skemmta og dansa og það voru glimmerbombur út um allt,“ segir Ásdís. Hún bjóst ekki endilega við að komast í úrslit en segir það hafa komið skemmtilega á óvart. Það reyndist vera lokaniðurstaða hennar, en bronsverðlaunin fóru til Hong Kong og Skotlands, silfurverðlaunin til Indlands og keppandi Malasíu stóð uppi sem sigurvegari. 

Ásdís er mjög sátt með úrslitin og er afar þakklát fyrir tækifærið sem henni gafst með þátttöku í svona stórri keppni. „Þetta er geggjað tækifæri og svo finnst mér líka standa upp úr allt fólkið sem ég hitti, ekki endilega bara keppendurnir, heldur líka kokkarnir sem voru að dæma keppnina, sem eru margir hverjir Michelin-stjörnukokkar.“ Hún segir keppnina því vera gott tækifæri til að koma sér á framfæri. „Keppnin snýst um að tengja löndin saman í gegnum mat og matreiðslu.“

Keppnin fór fram í þremur hlutum og komst Ásdís áfram …
Keppnin fór fram í þremur hlutum og komst Ásdís áfram á lokastigið, í 11 kokka úrslit. Ljósmynd/Aðsend

Á leiðinni í Heimsmetabók Guinness

Ýmsar uppákomur áttu sér stað meðan á keppninni stóð og eitt kvöldið settu keppendurnir fimmtíu heimsmet. „Allir keppendurnir elduðu sinn þjóðarrétt og áttum við þannig að slá heimsmet í fjölda fulltrúa þjóða sem elda mat undir sama þaki,“ segir Ásdís. Gestir gátu svo gengið á milli bása og smakkað þjóðarréttina. Fulltrúar frá Heimsmetabók Guinness voru á svæðinu og nú er einungis beðið eftir því að fá metið staðfest. Ásdís ákvað að elda þorsk með lauksmjöri og smælkiskartöflum. „Bara mjög  „basic“ íslenskan mat,“ segir hún.

Einn af fjölmörgu réttunum sem Ásdís eldaði meðan á leikunum …
Einn af fjölmörgu réttunum sem Ásdís eldaði meðan á leikunum stóð. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís á tvo mánuði eftir af samningnum sínum áður en hún klárar námið formlega. Hún starfaði áður á Sjávargrillinu en starfar nú á Lava, veitingastað Bláa lónsins. Hún segist ekki alveg vita hvað standi til hjá sér að námi loknu. „Ég á lítið barn þannig ég er ekki endilega að plana að fara til útlanda á næstunni, en ég er ekki alveg búin að ákveða það,“ segir hún, en segir það spennandi tilhugsun að ferðast um heiminn í stuttan tíma í senn og kynnast framandi matar- og menningarheimum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert