Krafa um að Landsréttardómari víki vegna vanhæfis

Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi.
Landsréttur er með aðsetur í Kópavogi. mbl.is/Hanna

Lögð hefur verið fram krafa í Landsrétti um að Arnfríður Einarsdóttir dómari víki sæti í dómsmáli vegna vanhæfis. Arnfríður er ein af fjórum dómurum Landsréttar sem voru ekki á lista sérstakrar hæfnisnefndar en dómsmálaráðherra lagði til að yrðu skipaðir. 

Greint er frá því á vef Ríkisútvarpsins að Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður hafi kröfuna fram á föstudaginn og það staðfestir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að tekin verði afstaða til málsmeðferðarinnar á morgun en á dagskrá Landsréttar er gert ráð fyrir að málið verði tekið fyrir á þriðjudaginn. Það er dómaranna sjálfra að úrskurða um eigið hæfi en auk Arnfríðar eiga Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson að dæma í málinu. Arnfríður er í hópi þeirra dómara sem dómsmálaráðherra lagði til að yrðu skipaðir í réttinn. Jóhannes og Þorgeir Ingi voru hins vegar á lista dómnefndarinnar. 

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að krafan sé meðal annars rökstudd með vísan til nýlegs dóms Evrópudómstólsins  þar sem skipun dómara í starfsmannarétt dómstólsins var talin ólögmæt. Einnig hafi verið vísað til nýlegs dóms EFTA-dómstólsins þar sem talinn var annmarki á skipun norsks dómara, sem og dóma Hæstarréttar í málum Ásráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannessonar. Þeir fengu báðir 700 þúsund í miskabætur frá íslenska ríkinu vegna málsmeðferðarinnar við skipun dómara í Landsrétt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert