Færð getur spillst fljótt

Veðurstofa Íslands

Vonskuveður er að skella á víðast hvar á landinu og má búast við því að færð geti spillst á næstu klukkutímum. Í Reykjavík var byrjað að salta og sandbera klukkan 4 í nótt og eru menn sem starfa við snjóruðning við öllu búnir enda spáin mjög slæm fyrir daginn. Búast má við þæfingsfærð innanbæjar.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það geti jafnvel orðið samfelld snjókoma á höfuðborgarsvæðinu um tíma á meðan éljabakkar ganga yfir. Annars verði þétt él í dag og því hætta á að það verði mjög blint. „Það verður væntanlega þæfingsfærð hér í borginni í dag,“ segir Haraldur.

Spáin er mjög slæm fyrir Suður- og Vesturland og í raun nánast allt landið fyrir utan norðausturhornið og Austurland.


 

Haraldur segir að þéttur éljagangur verði á Suður- og Vesturlandi í allan dag og eins megi búast við slæmri færð á fjallvegum á Vestfjörðum og Norðurlandi. Aftur á móti sleppi íbúar á Norðausturlandi og Austurlandi þokkalega frá þessu. 

Það verður leiðinlegt vetrarveður á höfuðborgarsvæðinu, snjór og vindur með,“ segir Haraldur. Hann segir að það verði útsynningur ríkjandi út vikuna og aðra nótt kemur lægð yfir með snjókomu með mjög vægum blotia þannig að það rétt nær að blotna. Á miðvikudag og fimmtudag og alveg fram á föstudag er suðvestanátt í kortunum. 

Líkt og Haraldur bendir á hefur ekki snjóað mikið í vetur og ágætistíð verið allt fram undir lok síðasta árs þannig að Íslendingar hafa sloppið ágætlega þennan vetur. En í vikunni muni snjóa talsvert á Suður- og Vesturlandi. 

Umhleypingasamt og kalt verður næstu daga, með talsverðri úrkomu sunnan og vestan til á landinu. Suðvestanátt með hvössum og dimmum éljum í dag en úrkomulítið austanlands. Frost víða 1 til 6 stig síðdegis.

Á morgun lægir smám saman, en annað kvöld nálgast næsta lægð.
Spáð er suðaustan hvassviðri eða stormi aðfaranótt miðvikudags, með snjókomu sem fer yfir í slyddu eða rigningu sunnanlands. Snýst aftur í suðvestanátt með éljagangi á miðvikudag, segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Gul viðvörun er á stórum hluta landsins. Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðvestan og vestan 10-18 m/s með dimmum éljum og ört kólnandi veðri. Skyggni og færð getur spillst ört. Einkum milli sex og átta og síðan frá hádegi á morgun.

Á Suðurlandi er spáð suðvestan og vestan 10-18 m/s með dimmum éljum og ört kólnandi veðri. Skyggni og færð getur spillst ört, bæði á fjallvegum og í íbúðargötum.

Við Faxaflóa gengur í suðvestan og vestan 10-18 m/s með ört kólnandi veðri og dimmum éljum. Skyggni og færð getur spillst ört, bæði á fjallvegum og í íbúðargötum.

Við Breiðafjörð er útlit fyrir suðvestan 10-18 m/s og samfellda snjókomu og síðan él og þá frystir einnig mjög hratt á blauta vegi. Einkum gætu aðstæður orðið erfiðar á fjallvegum s.s. Holtavörðuheiði, Bröttubrekku, Fróðárheiði og á sunnanveðrum Vestfjörðum.

Á Vestfjörðum er spáð suðvestan 10-18 m/s og éljagangi. Einkum gætu aðstæður orðið erfiðar á fjallvegum s.s. Steingrímsfjarðarheiði, Hálfdáni og Kleifaheiði.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra gengur í suðvestan 10-18 m/s með éljum. Þá frystir einnig mjög hratt á blauta vegi. Einkum gætu aðstæður orðið erfiðar á fjallvegum s.s. Holtavörðuheiði, Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði.

Á Suðausturlandi gengur í suðvestan og vestan 8-15 m/s með éljum og ört kólnandi veðri. Fryst getur á blauta vegi og skyggni og færð getur spillst auðveldlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert