Sigmundur gagnrýndi stjórnina harðlega

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að hún hafi enga stefnu um þróun fjármálakerfisins,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi í dag. Hann gagnrýndi ríkisstjórnina og sagði stefnuleysið áhyggjuefni.

Hann sagði að stjórnin ætlaði að móta sér stefnu síðar en fyrst yrði skrifuð hvítbók um málið, sem Sigmundur sagði eitt af stærstu viðfangsefnum stjórnmálanna undanfarin ár.

En á meðan þetta stefnuleysi er ríkjandi er ríkisstjórnin smátt og smátt, og raunar hratt á köflum, að missa tökin á atburðarásinni,“ sagði Sigmundur og taldi að ekki hefði verið vilji til að stíga inn í tilraunir vogunarsjóða til að leggja undir sig Arion banka.

Hann spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort ríkið ætlaði að selja vogunarsjóðum 13% hlut sinn í Arion banka. Einnig spurði Sigmundur hvort ætlunin væri að afsala sér forkaupsrétti að hlutabréfum í Arion banka fyrir skráningu þeirra á markað.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki rétt að tala um stefnuleysi

Katrín sagðist alls ekki vera sammála Sigmundi um svokallað stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum fjármálakerfisins. „Ríkisstjórnin vill ná að skapa hér heilbrigða umræðu um hvernig við viljum þróa íslenskt fjármálakerfi til framtíðar,“ sagði Katrín.

Hún sagði að með gerð hvítbókarinnar yrði rætt um fjármálakerfið á þinginu eftir að innlendir og erlendir ráðgjafar hefðu skoðað það betur. „Ég tel það ekki vera sanngjarnar eða réttar forsendur hjá háttvirtum þingmanni að tala um stefnuleysi,“ sagði Katrín og rifjaði upp tímann þegar Sigmundur var forsætisráðherra:

Þá var ráðist í gerð svokallaðra stöðugleikasamninga. Þá var tekin sú ákvörðun að eignarhald ríkisins í Arion banka yrði með þeim hætti sem nú er, þ.e. í gegnum þennan 13% hlut,“ sagði Katrín og bætti við að aðrar leiðir hefðu hugsanlega verið mögulegar, til að mynda að ríkið tæki yfir bankann. Katrín sagði að samkvæmt stjórnarsáttmálanum stæði til á kjörtímabilinu að draga úr eignarhaldi ríkisins á íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Sigmundur sagði Katrínu ekki koma með nein svör. „Það er óskiljanlegt ef stjórnmálaflokkum hefur ekki tekist að móta sér stefnu á þessu sviði á þeim tíma,“ sagði Sigmundur.

Hann sagði vogunarsjóðina geta náð fullkomnum tökum á fjármálakerfinu og mótað það eftir sínu höfði á meðan stjórnin væri að velta fyrir sér einhverri hvítbók.

Katrín minnti Sigmund aftur á að hann hafi verið forsætisráðherra þegar stöðugleikasamkomulag hafi verið gert. 

Þegar kemur að sölu á hlut ríkisins í Arion banka þá hefur engin ákvörðun verið tekin um hana,“ sagði Katrín og bætti við að ekki stæði til hjá ríkisstjórninni að auka eignarhaldið.

Að óundirbúnum fyrirspurnum loknum stigu þingmenn Miðflokksins í pontu hver á fætur öðrum og kölluðu eftir gögnum um það hvort ríkið ætti rétt á forkaupsrétti á bankanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert