Íslenskir víkingar í Ofurskálinni

Víkingarnir á leiðinni til Minneapolis.
Víkingarnir á leiðinni til Minneapolis. Mynd/Skjáskot út auglýsingunni

Hópur Íslendinga, þar á meðal Magnús Ver Magnússon, leikur í nýrri auglýsingu bandaríska bílaframleiðandans Dodge sem var sýnd í hálfleik Ofurskálarinnar, úrslitaleiks ameríska fótboltans, í nótt.

Auglýsingin var að mestu tekin upp hér á landi og þar eru Íslendingarnir í hlutverki víkinga á leið til borgarinnar Minneapolis, þar sem úrslitaleikurinn var haldinn, á Dodge Ram-jeppa.

Heimalið borgarinnar Minnesota er einmitt kallað Minnesota Vikings.

Á leiðinni syngja þeir hástöfum lag Queen, We Will Rock You.

Íslenskt landslag kom einnig við sögu í annarri auglýsingu sem var sýnd í hálfleik Ofurskálarinnar frá flugfélaginu Turkish Airlines.

Auglýsingahléin í hálfleik Ofurskálarinnar eru afar dýr og bíða margir spenntir eftir því að sjá hvað auglýsendur hafa fram að færa í hvert sinn.

Ljóst er að landkynningin sem Ísland hlaut með auglýsingunum tveimur var afar góð enda milljónir manna sem fylgjast með úrslitaleiknum á ári hverju.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert