Réttaróvissa fylgi skipan í Landsrétt

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, var harðorður í garð dómsmálaráðherra.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, var harðorður í garð dómsmálaráðherra. mbl.is/Hari

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, beindi fyrirspurn til Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi síðdegis. Sagði Jón Þór grafalvarlega réttaróvissu skapast af því að vafi leiki á því hvort dómarar við Landsrétt hafi verið skipaðir með lögmætum hætti og sakaði dómsmálaráðherra um að keyra „sína menn“ inn í Landsrétt „á rauðu ljósi“.

Því vísaði Sigríður algjörlega á bug, sem ómálefnalegum og órökstuddum fullyrðingum.

Jón Þór vísaði til frétta af því að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður hefði lagt fram kröfu um að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við Landsrétt, viki sæti úr dómsmáli sem taka átti fyrir í Landsrétti á morgun.

Hann sagði að jafnvel þó að Arnfríði verði ekki vísað til hliðar, verði hægt að kæra dóma hennar til Hæstaréttar og síðan til mannréttindadómstólsins í Strassbourg, sem gæti þýtt það að allir dómar hennar og annarra dómara sem ekki voru skipaðir í Landsrétt samkvæmt tillögu sérstakrar hæfnismatsnefndar yrðu ógildir.

„Það er mjög alvarleg réttaróvissa,“ sagði Jón Þór. Hann spurði dómsmálaráðherra hvað hún ætlaði að gera, „í þessari grafalvarlegu stöðu“.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði dómara við Landsrétt hafa verið …
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði dómara við Landsrétt hafa verið skipaða samkvæmt lögum og reglum. mbl.is/Hari

Dómararnir skipaðir lögum samkvæmt

„Eins og fram hefur komið í fréttum hefur lögmaður í einu dómsmáli ákveðið að láta reyna á það hvort einn dómari við Landsrétt sé hæfur til starfans,“ sagði dómsmálaráðherra, en bæti því við að það væri ekki hennar mat að dómarar við Landsrétt hefðu ekki verið skipaðir með löglegum hætti.

„Væntanlega í kjölfarið fer málið til Hæstaréttar,“ bætti Sigríður við og sagði annars ekki rétt að hún væri að ræða einstaka dómsmál á Alþingi. Hún myndi ekki tjá sig meira um þessi mál fyrr en úrskurður falli í Hæstarétti um kröfu Vilhjálms.

„Það liggur fyrir dómur Hæstaréttar um að ráðherra hafi ekki rannsakað málið nægilega vel þegar kom að skipun eða vali á dómara. Á það hefur verið bent ítrekað og ég árétta það enn og aftur að um er að ræða matskennda reglu stjórnsýsluréttarins. Það er ekki um það að ræða að dómarar við Landsrétt séu ekki skipaðir með lögmætum hætti,“ sagði Sigríður.

„Hér var fylgt auðvitað lögformlegu ferli, þeir eru skipaðir lögum samkvæmt, í samræmi við lög sem eru ákaflega skýr,“ sagði dómsmálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert