Aðallega karlar og stundum líka áfengi

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. …
Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. Hún segir gott að kynferðiðsleg áreitni í sænska kvennaboltanum sé tekin til umræðu. Ljósmynd/kdff.nu

Þriðjungur leikmanna í kvennadeildinni í sænska fótboltanum hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða misnotkun. Hin íslenska Elísabet Gunnarsdóttir, sem er þjálfari í sænsku úrvalsdeildinni til fjölda ára, segir í viðtali við hið sænska Kristianstadsbladet að hún þekki vel til þessa.

„Ég hef verið á þjálfaranámskeiðum og ráðstefnum. Í raun eru þetta bara karlar og stundum á áfengi þar hlut að máli,“ sagði Elísabet. „Ég ætla ekki að fara nánar út í það, en það er margt sem hægt er að benda á.“

Í gær birti sænska fótboltarásin niðurstöður könnunar sem gerð var hjá leikmönnum í kvennaboltanum í kjölfar metoo-umræðunnar. Segir Kristianstadsbladet niðurstöðurnar benda til alvarlegs vanda innan sænska fótboltans.

Elísabet er þjálfari úrvalsdeildarliðs Kristianstad  og var valin þjálfari ársins í fyrra. Hún segist ekki hissa á niðurstöðum könnunarinnar. „Ég er ekki hissa á fjöldanum og ef ég horfi tíu ár aftur í tímann þá er margt sem að ég gæti nefnt, en það kemur mér á óvart að atvikin á síðasta ári séu svona mörg,“ hefur blaðið eftir Elísabetu.

53 leikmenn úr tólf úrvalsdeildarliðum svöruðu könnuninni sem byggðist á nafnleysi. Hafði þriðjungur þeirra sætt kynferðislega áreitni vegna stöðu sinnar í úrvalsdeildarliði. 72% þeirra höfðu í nokkur skipti orðið fyrir slíkri áreitni og helmingur hafði sætt áreitni síðasta árið. Mikið var um kynferðislegar athugasemdir og þá hafði rúmur helmingur orðið fyrir líkamlegri áreitni.

„Það er gott að þetta sé rætt,“ sagði Elísabet og kvaðst kannast við vandamálin. Sjálf hefði hún í gegnum árin fengið ýmsar skrýtnar athugasemdir. „Ég hef fengið sérkennilegar athugasemdir, tölvupósta og skilaboð og þetta hefur gerst nokkuð jafnt á mínum ferli.“

Þessum kúltúr þurfi að breyta jafnvel þó að hún hafi sjálf vanist þessu í gegnum árin.

Hjá Kristianstad segir Elísabet reynt að taka á slíkum málum þegar þau komi upp. Engin alvarleg atvik hafi þó sér vitanlega komið upp á þeim níu árum sem hún sé búin að þjálfa liðið, en þeim sem upp hafi komið hafi hún tekið á með aðvörunum og með því að ræða málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert