Ekkert leikhlé í snjóruðningi

Umferð á Korpúlfsstaðavegi nú á tólfta tímanum, séð úr vefmyndavél …
Umferð á Korpúlfsstaðavegi nú á tólfta tímanum, séð úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. Ljósmynd/Vegagerðin

Snjóruðningur í Reykjavík hefur gengið ágætlega en tugir snjóruðningstækja hafa verið á ferðinni í dag og í nótt, og í raun undanfarinn sólarhring. Staðan er erfiðust í efri byggðum borgarinnar og búast má við því að snjóruðningstæki verði á ferðinni í allan dag. 

Leikhlé eru tíð í bandarískum ruðningi, t.d. þegar keppt var um Ofurskálina svokölluðu aðfaranótt mánudags, en aðra sögu er að segja um leikhlé hjá snjóruðningstækjum borgarinnar. 

Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg, segir í samtali við mbl.is, að menn hafi verið á ferðinni við að ryðja burt snjó í gær, og svo hafi allt verið sett aftur á fullt í nótt. 

Hann segir að unnið sé eftir skipulagi þar sem ákveðin svæði séu sett í forgang. Eins og fram kemur á vef Reykjavíkurborgar njóta stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur forgangs. Miðað er við að stofnbrautir og strætóleiðir séu færar fyrir kl. 7 að morgni og að hreinsun annarra meginumferðargatna sé lokið fyrir kl. 8.  

„Veðurspáin er þannig að það gengur á með byljum,“ segir Hjalti og bætir við að það geti skafið í. „Þannig að við verðum á ferð og flugi í dag, geri ég ráð fyrir.“

Aðspurður segir Hjalti að ástandið sé ávallt erfiðast í efri byggðum borgarinnar. „En ég hef ekki frétt neitt sérstaklega af einhverjum einum erfiðum stað. Við þekkjum náttúrulega þessa erfiðu staði, og reynum að leggja áherslu á þá. En tökum þetta verkefni eftir okkar forgangi og vinnulagi.“  

Það á að létta aðeins til nú síðdegis en síðan á að hvessa aftur með snjókomu seint í kvöld, en svo er rigningu spáð í nótt. 

Spurður um viðbrögð borgarbúa, þá segir Hjalti að þeir taki þessu yfirleitt af stóískri ró og sýni þessu þolinmæði. „Það eru allir að gera sitt besta að koma öllum á milli staða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert