Gæsluvarðhaldsfangar nær tvöfalt fleiri

Fjölga þarf fangavörðum til að nýta fangelsið á Hólmsheiði betur
Fjölga þarf fangavörðum til að nýta fangelsið á Hólmsheiði betur mbl.is/Árni Sæberg

Gæsluvarðhaldsfangar hafa aldrei verið fleiri en í janúar á þessu ári er þeir voru að meðaltali 34 talsins. Er það gríðarleg fjölgun frá fyrri árum, en gæsluvarðhaldsfangar voru að meðaltali 18 síðustu þrjú ár. Vakin er athygli á þessari fjölgun á Facebook-síðu Fangelsismálastofnunar.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í samtali við mbl.is að fjöldinn hafi komið sér á óvart, en að ástæðurnar séu væntanlega margvísilegar. „Ég held að lögreglan sé m.a. búin að vera öflug í sinni vinnu og sé búin að vera að skila árangri,“ segir Páll. „Ég held að það hafi líka hugsanlega haft áhrif að núna eru einfaldlega fleiri gæsluvarðhaldsrými til ráðstöfunar.“ Lengi vel hafi sú staða verið uppi að Fangelsismálastofnun gat ekki tekið við fleiri gæsluvarðhaldsföngum og það hafi hugsanlega haft einhver áhrif.

„Við erum búin að fylla fangelsið á Hólmsheiði af gæsluvarðhaldsföngum og þeir eru núna vistaðir í öðrum fangelsum líka,“  segir Páll og staðfestir að þessi mikli fjöldi gæsluvarðhaldsfanga hafi óneitanlega áhrif á hversu margir fangar geta hafið afplánun. „Þessir einstaklingar eru í forgangi og það þýðir að þegar þeim fjölgar svona mikið og svona hratt þurfum við að hægja á boðunum í hefðbundna afplánun.“

Þarf að fjölga fangavörðum til að fullnýta Hólmsheiðina

Spurður hvort að aukin fjöldi ákæra í kynferðisbrotamálum, fíkniefnamálum eða aukin fjöldi erlendra brotamanna sé ástæða þess að gæsluvarðhaldsföngum hafi fjölgað svo mikið, segir Páll væntanlega um að ræða blöndu af þessu þrennu. „Þynging refsing vegna kynferðisbrota hefur verið mikil síðustu ár,“ bætir hann við. „Við sáum mikla breytingu með umfjöllun Kastljóss fyrir nokkrum árum.  Þá fór allt í gang og nú erum við með býsna marga kynferðisbrotamenn vistaða í fangelsunum.“

Páll segir fangelsið á Hólmsheiði vera að virka mjög vel. „Það er nokkuð flókið verkefni að vera með móttökufangelsi, gæsluvarðhaldseinangrun og langtímafangelsi fyrir konur á sama stað, en það hefur gengið mjög vel.“ Fangelsið sé engu að síður ekki fullnýtt.  „Við höfum verið þar með upp í 40 fanga,“ segir hann. Hólmsheiðin getur þó rúmað allt að 56 fanga.

Gæsluvarðhaldsföngum hefur fjölgað gríðarlega frá því að fangelsið á Hólmsheiði …
Gæsluvarðhaldsföngum hefur fjölgað gríðarlega frá því að fangelsið á Hólmsheiði var tekið í notkun. Kort/Fangelsismálastofnun

Föngum sem bíða afplánunar fækkar í fyrsta skipti í 10 ár

Fullri nýtingu verður hins vegar ekki náð nema með fjölgun starfsmanna og segir Páll þurfa fjórar stöður fangavarða til viðbótar svo hægt sé að keyra Hólmsheiðina á fullum afköstum. Til að svo geti orðið þurfi Fangelsismálastofnun að fá aukið fjármagn. „Eða þá að fara betur með það fjármagn sem við erum með til staðar og þá hugsanlega með því að draga úr rekstri á einhverjum tilteknum sviðum og auka þá í á Hólmsheiði,“ bætir hann við.

Þó að Hólmsheiðarfangelsið sé ekki í fullum rekstri hafi engu síður, eftir að það var tekið í gagnið, tekist að byrja að vinna á biðlistum. „Í fyrsta skipti í  tíu ár hefur dómþolum á listanum fækkað á milli mælinga,“ segir Páll. „Listinn fór hæst í 612 fanga en er nú komin niður í um 550. Það er ákaflega ánægjulegt og ég er á því að ef við getum keyrt þetta á fullum afköstum að þá munum við vinna á þessum lista hratt og örugglega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert