Hefur efasemdir um sjálfstæði Landsréttar

Jón H. B. Snorrason saksóknari og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson verjandi …
Jón H. B. Snorrason saksóknari og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson verjandi ganga í dómsal í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Skipan Arnfríðar Einarsdóttur sem dómara við Landsrétt gefur umbjóðanda Vilhjálms H. Vilhjálmssonar réttmætar efasemdir um sjálfstæði dómstólsins, að sögn Vilhjálms, sem gerði grein fyrir kröfu um að Arnfríður víki sæti í dómsmáli umbjóðanda hans í Landsrétti nú fyrir hádegi.

Í máli Vilhjálms kom fram að undir eðlilegum kringumstæðum myndi umbjóðandi sinn ekki gera athugasemdir við að lögreglumennirnir sem önnuðust rannsókn málsins, lögreglustjórar, sýslumenn, saksóknarar og dómarar málsins væru skipaðir af dómsmálaráðherra.

Verklag Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipan dómara hefði hins vegar ekki verið í samræmi við lög og reglur og því væri eðlilegt að umbjóðandi hans hefði efasemdir. Ásýnd Landsréttar væri ekki sú að dómurinn væri sjálfstæður.

Vilhjálmur vísaði til dóma Hæstaréttar, þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða tveimur umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt miskabætur. Hann sagði þá dóma sýna fram á að ekki hefði verið rétt staðið að skipan dómara.

Hann sagði dómaraskipanina hafa áhrif á kjör til embættis forseta Landsréttar. Sé vafi um réttmæti dómaraskipanarinnar, er einnig vafi um forsetakjörið, en forseti Landsréttar úthlutar málum til dómaranna og ákveður hver er dómsformaður.

Vilhjálmur spurði hvort hin ólögmæta skipan hefði haft áhrif á það hver valdist til forsætis í Landsrétti og hvort atkvæði þeirra fjögurra dómara, sem voru skipaðir þvert á ráðleggingar hæfnisnefndar, hefði ráðið úrslitum í kjörinu.

Hann sagði dóminn verða að svara því hvers vegna dómsmálaráðherra hefði verið svo mikið í mun að skipa Arnfríði sem dómara – hvers vegna hún hefði kosið að brjóta lög?

Dómaraskipanin í samræmi við lög

Jón H.B. Snorrason saksóknari rakti allt skipunarferli dómara við Landsrétt og sagði skipunina vera í samræmi við lög. Hann sagði það rangt að hæstaréttardómarnir sem Vilhjálmur vitnaði til fjölluðu um skipan Arnfríðar, ranglega væri vísað til þeirra í þessu samhengi.

„Þarna eru dómar sem fjalla um kröfur tveggja umsækjenda um embætti í Landsrétti,“ sagði Jón. Hann sagði það koma skýrt fram í lögum að dómsmálaráðherra hefði val um að skoða og rannsaka álit hæfnisnefndar.

„Lögin eru skýr um það að þegar ráðherra hefur fengið nefndarálitið í hendur, þá hafi hann val um það að skoða og rannsaka þetta nefndarálit og leggja það fyrir Alþingi óbreytt eða gera breytingu á því. Það er alveg skýrt að hann hefur heimild til þess,“ sagði Jón.

Hann sagði niðurstöður hæfnisnefndar ekki hafa gefið dómarareynslu nægilegt vægi í Excel-skjalinu að mati ráðherra.

„Það er eðlileg og efnisleg ástæða hjá ráðherra að draga fram þennan þátt sem veigameiri og með því móti var Arnfríður Einarsdóttir færð á meðal 15 hæfustu. Það fylgdu því rök og ástæður og það var grundvöllur þeirrar ákvörðunar sem ráðherra fékk meðbyr með í þinginu,“ sagði Jón.

Breytingarnar hafi kallað á „prósess“ og hann hafi svo sannarlega farið fram. Saksóknari krefst þess að kröfunni verði vísað frá, en til vara að henni verði hafnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert