Telja ástæðu til að áminna starfsmann borgarinnar

Veghúsastígur 1.
Veghúsastígur 1. mbl.is/Árni Sæberg

Eigendur lóðarinnar á Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1 hafa skrifað borgarstjóra bréf til að lýsa þeirri skoðun sinni að full ástæða sé til að áminna þann starfsmann borgarinnar sem í greinargerð til úrskurðarnefndar skipulags- og auðlindamála sakaði þá um að láta húsið á Veghúsastíg 1 drabbast niður.

Segjast þeir jafnframt reikna með að málið verði falið öðrum starfsmönnum þegar það kemur til meðferðar á ný, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær kom fram að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur um að synja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1. Ástæðan var áform eigenda lóðarinnar og mannvirkjanna að rífa húsið Veghúsastíg 1, sem talið er ónýtt, og byggja hús með nýjum íbúðum á lóðunum.

„Ekki verður deilt við dómarann. Niðurstaðan er tekin alvarlega og verður virt,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, um niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

Borgin skipti um skoðun

Eigendur lóðarinnar hafa í fjölda ára verið í samskiptum við borgina um uppbyggingu á lóðum sínum. „Málið á sér margar hliðar. Þegar þessi hluti málsins fór af stað áttum við fund með Hjálmari Sveinssyni og sögðum honum frá hugmynd um uppbyggingu á reitnum,“ segir Stefán S. Guðjónsson, fulltrúi eigenda lóðarinnar. Hann lýsir gangi málsins frá sínum sjónarhóli: „Við ætluðum að halda í steinbæinn sem var á lóðinni en byggja önnur hús í stíl við það sem fyrir er og í nágrenninu. Honum leist vel á það og hvatti okkur til að fara af stað. Við útbjuggum svokallaða fyrirspurnartillögu sem ætluð er til að auðvelda fólki ferlið. Hún var samþykkt í skipulagsráði. Þá var málið komið á alvarlegra stig þó að ekki sé nema vegna útgjalda sem fylgja því að leggja út í deiliskipulagsvinnu. Það var gert og deiliskipulagstillagan var samþykkt, fyrst í skipulagsráði og svo í borgarráði. Hún fór í grenndarkynningu og örfáar athugasemdir bárust og aðeins ein efnisleg, varðandi friðun Veghúsastígs 1 sem áður var búið að fjalla um. Svo líður tíminn og loks er haft samband við okkur, við boðuð á fund og tilkynnt að borgin hefði skipt um skoðun, eftir allt það sem á undan var gengið.“

Rökstuðningur ófullnægjandi

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ekki einungis hafi rannsókn málsins hjá borginni verið verulega áfátt heldur hafi rökstuðningur ákvörðunarinnar verið ófullnægjandi. Er í því efni meðal annars vísað til þess að hvorki umsagnir Minjastofnunar né Borgarsögusafns hafi legið fyrir hjá borgarstjórn við afgreiðslu á umsókninni. Það séu umsagnir sérfróðra aðila sem gátu haft úrslitaþýðingu við afgreiðslu málsins. Í umsögn Minjastofnunar kom fram að húsið Vegahúsastígur 1 væri óviðgerðarhæft og að friðun þess hefði verið aflétt á árinu 2014. Talin eru upp fleiri gögn sem ekki voru lögð fram. Úrskurðarnefndin getur þess að borgarstjórn hafi borið að fara að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og einnig líta til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda lóðarhafa við afgreiðslu málsins.

 Sex athugasemdir bárust á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar. Af umfjöllun úrskurðarnefndarinnar að ráða voru þær ekki veigamiklar. Fjórar voru efnislega samhljóða og vísuðu til viðtals sem birst hafði við Hjálmar Sveinsson þar sem fram kom að húsið Vegamótastígur 1 væri friðað sökum aldurs auk skoðunar hans um að það bæri að gera upp. Haft var eftir Hjálmari að það kæmi „ekki til greina að eigendur komist upp með að láta aldursfriðað hús grotna innan frá árum saman og krefjast svo þess að borgin leyfi þeim að rífa það og vitni í slökkviliðið um slysahættu“.

Úrskurðarnefndin bendir á að ummælin um friðun hússins hafi verið röng og því geti þær umsagnir sem á þeim grundvallast vart talist gefnar á réttum forsendum. Þær hafi því ekki veitt viðhlítandi stoð fyrir þeirri ályktun skipulagsyfirvalda að húsið skyldi standa. „Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að svo verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fella beri hana úr gildi,“ segir úrskurðarnefndin.

Hún telur einnig að aðild Hjálmars formanns að meðferð málsins hjá skipulagsráði og í borgarstjórn orki tvímælis í ljósi ummæla hans enda hafi þau verið til þess fallin að draga í efna óhlutdrægni hans.

Stendur fast á sínu

Hjálmar vísar til Facebook-færslu þar sem hann segist hafa beðist afsökunar á ónákvæmni sinni í umræddu viðtali. Þá segist hann munu víkja af fundum þegar þetta mál verði tekið til afgreiðslu aftur.

Spurður hvort hann hafi íhugað að segja af sér í ljósi þess að brotnar hafi verið reglur stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu segir Hjálmar að það hafi ekki hvarflað að sér. „Minn hlutur í þessu máli er fyrst og fremst að standa fastur á því að vernda gömul hús. Ég hef aldrei dregið dul á það að ég tel ótækt að rifa þessi gömlu hús þarna. Ég er húsafriðunarmaður og stend við það,“ segir hann. Hann segist heldur ekki sjá ástæðu til að aðrir íhugi afsögn. Sér þyki miður að úrskurðarnefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn og undirbúningi hafi ekki verið nógu vel sinnt og af því þurfi að læra.

 Vonast eftir annarri niðurstöðu

Stefán S. Guðjónsson telur eðlilegast að fulltrúar borgarinnar kalli eigendur lóðarinnar til fundar við sig til að fara yfir málið. Það hafi ekki verið gert. Getur hann þess að margsinnis hafi verið óskað eftir viðtali við borgarstjóra um málið en það hafi ekki fengist. Verði ekki haft samband muni eigendurnir óskað eftir því að borgin afgreiði málið að nýju. Segist Stefán gera sér vonir um að önnur niðurstaða fáist og ekki verði reynt að þverskallast við, eftir allt sem á undan er gengið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert