Þæfingur í íbúðagötum

Veðurstofa Íslands

Unnið hefur verið að hreinsun gatna og stíga í Reykjavík nánast sleitulaust síðan í gærmorgun. Öll tæki eru við mokstur þessa stundina og helstu leiðir vel færar. Aftur á móti gæti verið þæfingur í íbúðagötum, að sögn verkstjóra á framkvæmdasviði borgarinnar. 

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni gengur enn á með éljum á suðvesturhorni landsins en umfang þeirra er heldur farið að minnka og ekki eins dimm og í nótt.

Um hádegi léttir til á Suðvesturlandi og verður þokkalegt fram á kvöld er það snýst í suðaustanátt og fer að snjóa að nýju. Heldur hlýnar í veðri og blotar eitthvað en samt ekki nægjanlega mikið til þess að snjó taki upp. Veðrið verður áfram leiðinlegt á morgun en léttir til þegar líður á daginn. Næsta lægð er síðan væntanleg á laugardag með roki og úrkomu. 

Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu og víðar á suðvesturhluta landsins, á Vesturlandi og Vestfjörðum en hún rennur út klukkan átta. Ekki þykir ástæða til þess að framlengja hana þar sem veðrið verður ekki mjög slæmt það sem eftir lifir dags. 

Hvergi er mikil hætta á snjóflóðum enda eldri snjóalög stöðug. 

Lögreglan á Suðurnesjum biður fólk um að keyra varlega í umdæminu enda veðrið fremur leiðinlegt og snjór á götum.

Það er hálka á Sandskeiði og í Þrengslum en snjóþekja á Hellisheiði. Mosfellsheiði er ófær og Lyngdalsheiði þungfær en mokstur er hafinn. Snjóþekja er annars á flestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi.

Hálka og snjóþekja er á vegum um allt sunnan og vestanvert landið en á  Norðaustur- og Austurlandi er talsvert mikið autt. Hálkublettir eða hálka er með suðausturströndinni.

Þingskálavegur (vegur 268) er ófær eins og er vegna vatnaskemmda, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. 

Veðurspáin fyrir næstu daga

Suðvestanátt, víða 10-18 m/s og éljagangur en hægari og úrkomulítið A-lands. Frost 1 til 6 stig. Dregur talsvert úr vindi og styttir víða upp í dag en snýst í vaxandi suðaustanátt undir kvöld 13-20 m/s og fer að snjóa við suðvesturströndina seint í kvöld og hlánar þar. 

Víða rigning eða slydda á láglendi í nótt en snýst í suðvestan 10-18 með éljum í fyrramálið, fyrst um landið vestanvert. Léttir til á Norðaustur- og Austurlandi síðdegis á morgun. Kólnar aftur.

Á miðvikudag:

Suðaustan 15-20 m/s og snjókoma, slydda eða rigning, en snýst í hægari suðvestanátt með éljum með morgninum og léttir til á N- og A-landi síðdegis. Hiti 0 til 5 stig S- og V-lands í fyrstu, en frost annars 0 til 5 stig. 

Á fimmtudag:
Suðvestan 8-15 og él, en bjartviðri eystra. Frost 0 til 10 stig, minnst með S- og A-ströndinni. 

Á föstudag:
Suðvestlæg átt og dálítil él, einkum vestan til, en snýst í vaxandi austanátt S-lands um kvöldið. Frost um land allt. 

Á laugardag, sunnudag og mánudag:
Útlit fyrir allhvassa norðaustlæga átt með úrkomu í flestum landshlutum. Víða vægt frost.

„Núna með morgninum dregur allhratt úr éljum og síðan einnig vindi um landið S- og V-vert. Víða skaplegt veður síðdegis. Í kvöld hvessir af suðaustri með skammvinnum blota og er gert ráð fyrir rigningu eða slyddu á láglendi. Seint í nótt og í fyrramálið snýst hann svo aftur í suðvestanátt með éljum og síðdegis á morgun ganga skilin norðaustur af landinu og léttir þá til á NA- og A-landi. Verður síðan suðvestanáttin viðloðandi fram eftir föstudegi, en á laugardag er að vænta næstu lægðar,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert