2200 borgarstarfsmenn stytta vinnuvikuna

Veikindafjarvistir drógust saman á eina leikskólanum sem tekið hefur þátt …
Veikindafjarvistir drógust saman á eina leikskólanum sem tekið hefur þátt í verkefninu hingað til. Frá 12. febrúar bætast fleiri við. mbl.is/Golli

Um 2.200 af 8.500 starfsmönnum Reykjavíkurborgar á um 100 starfsstöðum munu taka þátt í öðrum áfanga tilraunaverkefnis borgarinnar um styttingu vinnuvikunnar, sem hefst þann 12. febrúar næstkomandi og stendur til 31. ágúst 2019. Þetta segir Magnús Már Guðmundsson, formanns stýrihóps um verkefnið.

Hann kynnti niðurstöður fyrsta áfanga verkefnisins á málþingi í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Síðasta vetur tókur um 300 starfsmenn á átta starfsstöðum þátt í tilraunaverkefninu, en verkefnið hófst árið 2015.

Fram kom í kynningu Magnúsar að dregið hefði úr andlegum og líkamlegum einkennum álags á meðal starfmanna og starfsánægja hefði aukist.

Á leikskólanum Hofi hafa veikindafjarvístir minnkað úr 7,6% niður í 4,3% síðan haustið 2016, þegar leikskólinn hóf þátttöku í verkefninu. Magnús sagði þetta eina af mörgum ástæðum fyrir því að haldið væri áfram með verkefnið.

Hann sagði jafnframt að vísbendingar væru um að styttri vinnuvika gæti hjálpað borginni að glíma við manneklu á vissum starfsstöðum. Fylgjast þurfi með þessum áhrifum í öðrum áfanga verkefnisins, þar sem hætta sé á að langtímaáhrifin verði önnur en niðurstöður bendi nú til.

„Við erum gríðarlega ánægð þegar við sjáum fleiri tala fyrir þessu og taka þetta upp,“ sagði Magnús og vísaði þar til verkefna ríkisins, Félagsstofnunar Stúdenta og Hugsmiðjunnar.

Sem áður segir munu um 100 starfsstöðvar borgarinnar taka þátt í öðrum áfanga verkefnisins. Það eru leikskólar, bókasöfn, söfn, skrifstofur af ýmsum toga, hverfastöðvar, félagsmiðstöðvar, sambýli og þjónustumiðstöðvar, svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að fylgjast með málþinginu í beinu streymi á Facebook-síðu Reykjavíkurborgar og hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert