Blöndulína felld niður

Blöndulína hefur verið felld niður sem varnarlína vegna dýrasjúkdóma með ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Takmarkanir á flutningum sauðfjár í fyrrum Húnahólfi lengist sem nemur nýjasta tilfelli riðu í fyrrum Skagahólfi.

Matvælastofnun telur mikilvægt að viðhalda varnarlínum, einkum á áhættusvæðum riðu, og reyna þannig að stemma stigu við útbreiðslu smitsjúkdóma. Blöndulína í núverandi mynd þjónar hins vegar ekki tilætluðum tilgangi. Ljóst er að varnarlínan hefur ekki verið fjárheld frá því Blönduvirkjun var reist og ekki fæst fjármagn til að halda varnarlínunni fjárheldri.

Við þessa breytingu sameinast Húnahólf og Skagahólf í eitt varnarhólf sem kallast Húna- og Skagahólf og verður varnarhólf nr. 9. Hólfið mun afmarkast af Vatnsneslínu, Miðfjarðarlínu og Tvídægrulínu að vestan, Kjalarlínu að sunnan og Héraðsvatnalínu að austan.

Varnarlínur vegna smitsjúkdóma hafa ýmsar takmarkanir í för með sér fyrir sauðfjár- og nautgripabændur. Ekki er heimilt að flytja jórturdýr til lífs yfir varnarlínu nema sótt sé um leyfi hjá Matvælastofnun og umfangsmiklar takmarkanir gilda gagnvart flutningi landbúnaðartækja, heyja o.fl. Allt sauðfé sem fer eða er flutt yfir varnarlínu án heimildar ber að aflífa.

Síðasta riðutilfelli kom upp í Skagahólfi árið 2016 á bænum Stóru Gröf Ytri. Varnarhólf telst sýkt í 20 ár frá síðasta staðfesta tilfelli. Því mun nýja hólfið, Húna- og Skagahólf, teljast sýkt svæði til 31. desember 2036, að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp. Helstu áhrif sameiningar hólfanna á bændur eru að gildistími hafta innan fyrrum Húnahólfs lengist um að minnsta kosti 9 ár. Síðasta tilfelli riðu í Húnahólfi var árið 2007 á bænum Kambhóli í Húnaþingi vestra og að öllu óbreyttu hefði því höftum verið aflétt af því hólfi 1. janúar 2028.

Í báðum hólfum var bólusett við garnaveiki og mun ný skipan ekki hafa breytingar í för með sér hvað garnaveikibólusetningar varðar.

Aðrar breytingar sem tilkynntar eru í auglýsingunni eru að Eyjafjarðarlína færist úr stað og liggur línan nú eftir Eyjafjarðará sunnan að Mjaðmá að Skjónafelli og að Miklafelli í Hofsjökli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert