„Getuleysi“ eða „viljaleysi“ lögreglunnar

google
google google

„Alveg örugglega er verið að óska eftir upplýsingum frá henni. Það er samt ekki hægt að valda henni jafn miklum skaða og raun ber vitni. Það er ekki hægt að þvinga fram upplýsingar úr aðila með því að meina honum um nauðsynlega læknisaðstoð. Þar geta íslensk stjórnvöld gert betur,” segir Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem hlaut mænuskaða eftir fall á Malaga á Spáni.

Hann gagnrýnir íslensk stjórnvöld að beita sér ekki í máli hennar á Spáni. 

Eiginmaður Sunnu var handtekinn við komuna til landsins í janúar. Hann er í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á innflutningi á fíkniefnum sem merkt var Skáksambandi Íslands.

Sunna er í farbanni því spænska lögreglan er með vegabréf hennar en hún er ekki með réttarstöðu sakbornings, að sögn Páls. 

„Ég veit ekki til þess að hún hafi verið yfirheyrð með réttarstöðu sakbornings en hún hefur vissulega svarað spurningum lögreglu,” segir Páll spurður hvort lögreglan hafi yfirheyrt hana. Spurður hvort hún sé vitni svara hann því til að lögreglan sé: „væntanlega reyna að kreista fram einhverjar upplýsinga en eins og hún hefur sagt tengist hún ekki neinum málum.“ Páll bendir á að það sé ekki ólíklegt að lögreglan vilji ræða við hana í ljósi þess að eiginmaður hennar sitji í gæsluvarðhaldi á Íslandi í vegna rannsóknar á innflutningi á fíkniefnum.  

Sunna Elvira á spítala í Malaga á Spáni.
Sunna Elvira á spítala í Malaga á Spáni. Ljósmynd/Aðsend

Sunna liggur á ríkissjúkrahúsi í Malaga. Þar fær hún ekki viðeigandi læknisaðstoð og er líðan hennar ekki sögð góð, að sögn Páls. Unnið hefur verið að því að fá hana flutta á einkarekið  sjúkrahús í landinu. Ekkert hefur orðið af þeim áformum. Upphaflega var stefnt að því að fá hana flutta heim til Íslands og var hafin söfnun fyrir hana til að standa undir kostnaðinum við sjúkraflugið. Á nokkrum dögum náðist að safna um fimm milljónum króna, að sögn talsmanns hennar.

Páll gagnrýnir íslensk stjórnvöld og alþjóðadeild lögreglunnar sem er með  tengsl við  lögregluna á Spáni fyrir að beita sér ekki í hennar þágu. „Þetta er getuleysi eða viljaleysi eða sitt lítið af hverju,“ segir Páll. 

Hins vegar hefur íslenska lögreglan ekkert boðvald í máli Sunnu þrátt fyrir að hún sé íslenskur ríkisborgari. Hann bendir á að hægt sé að taka skýrslur af henni hér heima ef lögreglan á Spáni óski eftir því. Þar geti alþjóða lögreglan hér heima komið til aðstoðar. 

Páll segist ekki fá nein svör hvers vegna hún fái ekki að fara úr landi né hvers vegna ekki megi flytja hana á annað sjúkrahús. Spurður hvort lögmaður Sunnu á Spáni sé ekki kunnugt um allar málsaðtæður segir Páll að sá sé „að vinna í hennar málum.“ 

Lögregluyfirvöld á Spáni segjast ekki ætla að svara fyrirspurnum fjölmiðla um mál Sunnu, hvorki með tölvupósti né símleiðis, þegar mbl.is óskaði eftir því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert