Settu húsið á sölu á mánudaginn

Eggert og eiginkonan hans Michelle á góðri stundu.
Eggert og eiginkonan hans Michelle á góðri stundu. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Michelle Nielson

„Fyrir utan vini mína og fjölskyldu hefur fólk sem við þekkjum ekki neitt verið mjög stuðningsríkt í okkar garð. Við viljum þakka öllum frá okkar dýpstu hjartarótum fyrir að trúa á okkur og vilja hafa okkur hérna,“ segir Eggert Einer Nielson og talar líka fyrir hönd eiginkonu sinnar Michelle og sonar þeirra Eggerts.

Eggert Einer á íslenska móður og bjó fyrstu sjö ár ævi sinnar hérlendis. Þrátt fyrir það var honum neitað um íslenskan ríkisborgararétt. Síðustu sjö árin hefur hann búið á Íslandi, fyrst á Súðavík og síðan á Ísafirði.

Fékk 350 þúsund króna reikning

Eggert reynir þessa dagana að fá dvalarleyfi sitt hérlendis endurnýjað, eins og hann hefur þurft að gera undanfarin ár. Það rennur út í júlí og bíður hann eftir ákvörðun Útlendingastofnunar en kveðst vongóður um að hljóta leyfið.

Aðspurður segir hann lýjandi að þurfa að endurnýja dvalarleyfið á hverju ári. Sem dæmi um vandamál sem hann hefur lent í vegna stöðu sinnar segir hann frá því er hann þurfti að leggjast inn á sjúkrahús í fimm daga. „Þegar ég var útskrifaður sögðu þau að ég væri ekki skráður með dvalarleyfi hér heldur í Bandaríkjunum, þannig að þeir létu mig hafa stóran og feitan reikning upp á 350 þúsund krónur, vegna þess að Útlendingastofnun sagði að við værum í Bandaríkjunum en ég er samt að vinna hérna, “ segir Eggert í spjalli við mbl.is.

Hann segir óvissuna einnig hafa áhrif á son sinn Eggert, sem er 21 árs og hefur gengið bæði í grunnskóla og menntaskóla fyrir vestan. Hann þurfi á öryggi að halda hérlendis. „Ég vildi óska þess að við gætum komist inn í kerfið og þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að honum verði sparkað í burtu líka.“

Hlutirnir ekki gengið þeim í hag

Eggert segir það mikil vonbrigði að hafa ekki fengið íslenskan ríkisborgararétt þegar hann sótt um hann og segir það í rauninni „klikkað“ að fá hann ekki, bara af því að hann fæddist áður en lögum var breytt þess efnis að börn íslenskra mæðra fengu ríkisborgararétt sjálfkrafa við fæðingu. Lögunum var breytt árið 1982 en eru ekki afturvirk.

Hann segist ekki hafa viljað hljóma eins og einhver vælukjói með því að stíga fram með sögu sína en það var vinur hans á Ísafirði sem greindi fyrst frá málinu á Facebook snemma í gær.

„Hlutirnir hafa ekki verið að ganga okkur í hag og ég hugsaði með mér að það væri kannski tímabært fara eitthvað annað. Það eru alltaf atvinnutækifæri annars staðar og kannski þarf ég að fara aftur til Bandaríkjanna og byrja upp á nýtt,“ segir Eggert og nefnir að þau hjónin hafi sett húsið sitt á Ísafirði á sölu á mánudaginn.

Hjónin eiga tvö önnur börn í Bandaríkjunum, sem þau sakna, og hugsuðu þau með sér að vegna þess að hann hefði hvorki fengið dvalarleyfið endurnýjað né ríkisborgararétt, auk þess sem hann hafi litla vinnu, væri líklega best að yfirgefa Ísland, þrátt fyrir að hann líti á landið sem sitt heimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert