Tóku myndir af dóttur hennar

Steinunn Valdís Óskarsdóttir er fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og þingmaður Samfylkingarinnar.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir er fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

„Höfum það hugfast að hlutlaus athöfn í mannlegum samskiptum er ekki til. Sérhver athöfn eða athafnaleysi stuðlar að því að styðja við bakið á einhverjum eða hrinda honum fram af brúninni.“

Þannig hóf Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarstjóri, erindi sitt á ráðstefnu um áhrif #metoo á fyrirtækjamenningu. Steinunn fjallaði um það þegar mótmælt var fyrir utan heimili hennar í nokkrar vikur vorið 2010.

Steinunn segist hafa skilað skömminni eftir að hún komi í Silfrið í desember þar sem hún ræddi mótmælin og nauðgunarhótanir gegn henni. „Með því að segja mína sögu var ég að rétta keflið áfram til næstu konu sem segði sína sögu og svo koll af kolli,“ sagði Steinunn.

Vissi ekki við hverju var að búast

Hún rakti mótmælin fyrir utan heimili sitt en Steinunn fékk send skilaboð sunnudaginn 18. apríl 2010 þess efnis að það væri verið að skipuleggja fjöldamótmæli við heimili hennar það kvöld. Hún ráðfærði sig við lögreglustjóra og fleiri um viðbrögð en ýmsir ráðlögðu henni að vera að heiman. Steinunni þótti það óhugsandi en enginn kom það kvöld.

Kvöldið eftir kom um 40 manna hópur, karlar í miklum meirihluta, og stillti sér upp fyrir framan hús Steinunnar. „Það var reiði, sorg og vanmáttur sem bærðust með mér þegar ég sá sjónvarpsstöðvarnar koma að heimili mínu og fólk koma sér fyrir í portinu á milli húsanna.  Lítið gerðist framan af en ég hafði vara á mér enda vissi ég ekki við hverju var að búast,“ sagði Steinunn. Hún bað fólkið að sýna henni þá tillitssemi að vera ekki við heimili hennar en hún væri til í að hitta það hvar og hvenær sem er. Hópurinn afhenti Steinunni áskorun um afsögn og var áfram fyrir utan heimili hennar í um klukkustund.

Reyndu að láta á litlu bera

„Þetta fyrsta kvöld var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi. Þessi fyrsta vika mótmælastöðunnar fór þannig fram að um klukkan 20:00 á hverju kvöldi fór hópur að safnast saman fyrir utan, einhver kom upp tröppurnar og stakk hlutum inn um bréfalúguna,“ sagði Steinunn en oftast var það útprentun af bloggi eða einhverju svipuðu.

Frummælendur á Grand í dag.
Frummælendur á Grand í dag. mbl.is/Jóhann

Mótmælendur höfðu engan áhuga á að tala við Steinunni, þeir heimtuðu bara afsögn. „Óneitanlega fór heimilislífið úr skorðum og dóttirin 10 ára var áhyggjufull, þó að hún léti á litlu bera. Börn eru sterk þegar á reynir og finna á sér áhyggjur foreldra án þess að láta á miklu bera. Við reyndum að lifa okkar lífi og láta sem þetta hefði ekki áhrif.“

Steinunn segir að karlar hafi verið í miklum meirihluta öll mótmælin. Hún fór í viðtal við Fréttablaðið í byrjun maí þar sem hún sagðist ætla að halda áfram í stjórnmálum og bað fólk um að dæma sig af verkum sínum. „Þar útskýrði ég að ég hefði farið í gegnum það með sjálfri mér hvort ég hefði gert eitthvað rangt siðferðilega en allir vita að lagalega var ekki staðið rangt að neinu,“ sagði Steinunn og bætti við að í huga sumra væri þetta sem olía á eldinn.

Hótað með ríðingum

Steinunn hafði á tilfinningunni að sér yrði kastað fyrir ljónin og að margir innan flokks væri bara nokkuð sáttir við það, enda kastljósið ekki á þeim á meðan. Eftir viðtalið í Fréttablaðinu magnaðist andstaðan upp.

„Geiri kenndur við Goldfinger hvatti karla til að fara og mótmæla þessari kerlingu almennilega sem væri eitthvað uppi á dekki. Hann skrifaði facebókarfærslu um að það væri svo vont að kyssa mig því ég bryddi tennur úr öllum körlum sem kæmu nálægt mér.  Mér var hótað með ríðingum,“ sagði Steinunn og kvaðst þarna hafa orðið smeyk.

Varð hrædd og brjáluð

Í þriðju viku mótmælanna gerðist atburður þar sem Steinunn varð hrædd og brjáluð af reiði. Dóttir hennar var að koma heim af æfingu með vinkonum sínum og gleymdi að fara inn bakdyramegin.

„Þær komu glaðar og frískar eftir fótboltaæfingu inn portið, en skelkaðar og skeknar upp tröppurnar til mín. Vinkonur dóttur minnar sögðu að „mennirnir“ hefðu tekið myndir af þeim,“ sagði Steinunn. Hún bað þær um að fara út og biðja mennina að eyða myndunum enda vissi hún að ef hún gerði það væri það til einskis.

„Vanmáttur minn var alger á þessari stundu. Ég gat ekki verndað fjölskyldu mína. Til hvers að taka ljósmyndir af litlum tíu ára stelpum, hver var tilgangurinn og hvað átti að gera við þessar myndir. Nú var of langt gengið.“

Ólíkar kröfur gerðar til kvenna og karla

Síðasta vika mótmælanna hófst mánudaginn 24. maí en sveitarstjórnarkosningar voru 29. maí. Steinunn ákvað að þarna væri rétt að stíga til hliðar í stjórnmálum enda þurfi manneskja á þeim vettvangi að njóta trausts og finna stuðning. Annars væri lítið eftir.

„Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sagði í ágætum pistli sínum í Fréttablaðinu meðan á þessu stóð eitthvað á þá leið að þegar hópur stjórnmálamanna verður uppvís að því að hafa þegið fé af stórfyrirtækjum þá skuli þær konur sem í hópnum eru víkja,“ sagði Steinunn en hún hefur oft leitt hugann að ólíkum kröfum sem gerðar eru til kvenna og karla.

„Mestu vonbrigði mín eru þau að sjá hversu stutt við erum komin að þessu leyti. Margar konur í Samfylkingunni og reyndar karlar líka sögðu við mig „Við gerum meiri móralskar kröfur á þig en karlana sem þáðu háa styrki.“  En um leið er verið að gera þá kröfu til kvenna að þær spili á forsendum karla.“

Steinunn kveðst alla sína stjórnmálatíð hafa frekar verið í svokölluðum hörðum málum; málaflokkum karla, enda hafi hún verið beðin um það.

Kona lá vel við höggi

„Auðvitað hef ég velt fyrir mér hvers vegna allir þessir karlar mótmæltu við heimili mitt í margar vikur. Hvað var það sem dró þá til mín en ekki annarra? Kannski var það að hafa andæft ríkjandi skoðunum,“ sagði Steinunn. Hún hafi staðið gegn karlaveldi sem birtist víða. Ef til vill hafi einhverjum verið ógnað við völd kvenna.

„Hvað olli því að Geiri í Goldfinger fór að hvetja fólk til mótmæla? Skyldi það vera barátta mín og annarra kvenna gegn vændisvæðingu og rekstri súlustaða?“ sagði Steinunn og rifjaði upp að það hefði verið tekinn stór slagur við rekstraraðila súlustaða í Reykjavík um bann við einkadansi og staðirnir hefðu misst tekjur. „Það hafði ekkert með styrki að gera, heldur lá kona vel við höggi.“

Steinunn tók af allan vafa um að hún væri að tala um hótanir vorið 2010 en ekki þau ummæli um nauðganir og ofbeldi sem Gillzenegger lét falla í hennar garð árið 2007 og er þessu ótengt. „Það er þó tengt þessu á vissan hátt því það mál lýsir samfélagsgerð sem þótti þau ummæli misheppnuð fyndni og fannst allt í lagi að skella þeirri fyrirmynd ungra drengja framan á símaskrána. Því hann var jú alltaf bara að grínast!“

Reynt að koma ábyrgðinni á þolandann

Ein af skýringum gerenda eftir á hefur verið að viðbrögð Steinunnar hafi verið önnur en karlanna og þess vegna hafi þeir verið fimm vikur fyrir utan heimili hennar. „Þetta er kunnuglegt stef í tengslum við hvers kyns ofbeldi. Viðbrögðin voru ekki rétt,“ sagði Steinunn og hélt áfram:

„Einn þeirra sagði nýlega; hefði hún brugðist öðruvísi við þá hefðum við sko ekki verið allan þennan tíma, Gulli [Guðlaugur Þór Þórðarson] kom nefnilega út og talaði við okkur – hvað er verið að gera með þessu? Koma ábyrgð yfir á þolanda að hafa ekki verið með „rétt viðbrögð“. Ég fór út, ég bauð þeim í kaffi en það skipti bara engu máli. Ég er kona.“

Steinunn sagði að það væri magnað að viðbrögð samfélagsins hafi gert það að verkum að menn hafi gengist við ofbeldi sínu og sagt fyrirgefðu. „Nokkrir af nafngreindu gerendunum sem fannst sem þeir hefðu ekkert rangt gert og tjáðu sig á þann veg í fjölmiðlum eftir Silfrið hafa núna haft við mig samband og beðist afsökunar á sínum þætti.“    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert