Vistvænir kúnnar fá 10% afslátt

Sindri Daði Rafnsson að störfum í bakaríinu.
Sindri Daði Rafnsson að störfum í bakaríinu. Ljósmynd/Ívar Sæland

„Okkur fannst sárt að horfa upp á allt plastið fara í ruslið og vorum svolítið með tárin í augunum þegar Íris kom með þessa hugmynd sem nú er komin í loftið,“ segir Sindri Daði Rafnsson en frá og með deginum í dag fá viðskiptavinir sem koma með margnota poka eða eigin ílát til Sindra bakara á Flúðum 10% afslátt.

Sindri og kona hans Íris Dröfn Kristjánsdóttir reka vinsælt bakarí og kaffihús á Flúðum. Sindri segir að því miður séu ekki ruslagámar í nágrenninu fyrir plast og því fari allt plast saman við annað sorp sem þeim Írisi þótti mjög erfitt að horfa upp á. 

Hann segir þau mikið hafa verið að huga að endurvinnslu og endurnotkun og í kjölfarið hafi Íris fengið hugmyndina að því að veita vistvænum viðskiptavinum afslátt. 

Þau höfðu m.a. fylgst með aðgerðum Samkaups á Flúðum en þar, líkt og í öðrum Samkaupsverslunum, hefur viðskiptavinum verið boðið að skipta út plastpokum fyrir fjölnota poka. 

„Við fórum að velta fyrir okkur hvernig við gætum komið til móts við kúnnana okkar og þetta var niðurstaðan,“ segir Sindri. Hann segir að allir hagnist á því að draga úr plastnotkun með þessum hætti: Kúnnann, fyrirtækið og umhverfið. 

Góð viðbrögð

Sindri og Íris höfðu sagt nokkrum viðskiptavinum að þetta stæði til en í dag var svo verkefninu formlega ýtt úr vör með tilkynningu á Facebook-síðu Sindra bakara. „Viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð,“ segir Sindri. Hann segist þó gera sér fulla grein fyrir því að það taki tíma fyrir hvern og einn að breyta venjum sínum og muna eftir að mæta með fjölnota pokann eða eigið ílát. „Ég þekki það sjálfur, ég kaupi margnota poka eiginlega í hvert skipti sem ég fer út í búð,“ segir hann hlæjandi. Hjá Sindra bakara er þegar boðinn eldri borgara afsláttur og segir Sindri áhugavert að það sé einmitt sá hópur sem oftast komi með margnota umbúðir í bakaríið. 

Hann segir þetta umhverfismál mikilvægt og að ef allir leggist á eitt og fari með fjölnota umbúðir að versla megi „gera rosalega góða hluti“. Allir verði að reyna að stilla sig inn á það að muna eftir margnota pokunum og eigin ílátum. „Við viljum leggja okkar lóð á þær vogaskálar,“ segir Sindri bakari sem vonast til þess að fleiri fyrirtæki muni fylgja í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert