„Ég hef ekki fengið medalíu“

Ásmundur Friðriksson telur ekki ólíklegt að hann hafi fengið 4,6 …
Ásmundur Friðriksson telur ekki ólíklegt að hann hafi fengið 4,6 milljónir endurgreiddar vegna aksturskostnaðar á síðasta ári. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það er ekki gefin út nein keppnisskýrsla í þinginu um þetta og ég hef ekki fengið medalíu, en ég er allavega kandídat í þetta,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður hvort hann sé sá þingmaður sem fékk mestan aksturskostnað endurgreiddan fyrir síðasta ár, eða 4,6 milljónir króna. Þrátt fyrir að vita það ekki með vissu hvort hann hafi fengið mest endurgreitt þá telur hann það alls ekki ólíklegt, enda keyri hann mjög mikið.

„Ég fylgist ekkert með þessu, ég fæ bara mánaðarlegt uppgjör. Ég legg þetta ekki saman frekar en launaseðlana mína. Ég er ekkert alveg klár á því sem ég var með á síðasta ári, en ég keyri mjög mikið, segir Ásmundur sem hyggst halda þeirri iðju áfram. Segist þingmaðurinn vera mjög stoltur af því að vera ofarlega á blaði hvað þetta varðar.

Fram kom í dag, í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, að aksturskostnaður þingmanna í fyrra hafi numið rúmlega 29 milljónum króna, en sá þingmaður sem fékk mestan kostnað endurgreiddan hafi fengið 4,6 milljónir króna.

Ásmundur bendir á hann hafi stóru kjördæmi að sinna og þetta sé því fljótt að koma. „Svo keyri ég auðvitað í vinnuna á hverjum degi, það eru yfir 100 kílómetrar. Það eru 500 kílómetrar á viku og 2.000 kílómetrar á mánuði bara í vinnuna, þannig þetta er fljótt að koma,“ segir Ásmundur en hann býr í Keflavík.

Fer alltaf heim til sín á kvöldin

Þá hafa kjördæmavikurnar einnig sitt að segja. „Nú erum við að fara í kjördæmaviku og það verður byrjað á Höfn á sunnudaginn. Svo verðum við í Reykjanesbæ á þriðjudaginn. Við tökum allt kjördæmið, þetta er mjög stíft prógram og við keyrum mjög mikið. Ég hef oft keyrt 2.000 kílómetra í kjördæmaviku.“ Ásmundur bendir á að þingið greiði ekki gistingu fyrir þingmenn í kjördæminu og hann keyri því alltaf heim á kvöldin, þó hann hafi farið langt að heiman.

Hann segir alla sem vilja geta lesið um ferðir hans á Facebook, en þar hefur hann gert öllum ferðalögum sínum góð skil, bæði vinnuferðum og skemmtiferðum. „Ég hef skrifað um nánast hverja einustu ferð á Facebook frá því ég fór á þing árið 2013. Ég tek myndir og segi frá því sem ég geri.“

Bendir á að sumir fljúgi í vinnuna í hverri viku

Ásmundur vill vekja athygli því að það þurfi að skoða málið í heild sinni þegar verið er að fjalla um endurgreiðslu aksturskostnaðar, enda keyri ekki allir í vinnuna að heiman líkt og hann.

„Það eru þingmenn sem búa á landsbyggðinni sem fljúga fram og til baka í vinnuna í hverri viku, hafa bílaleigubíla í Reykjavík og jafnvel í kjördæminu heima hjá sér, og fá á þriðja hundrað þúsund í húsnæðisstyrk í hverjum mánuði. Þannig það þarf að skoða þetta í heild sinni. “ Bendir hann á að þeir sem fljúgi í vinnuna í hverri viku fljúgi kannski 80 til 100 ferðir á ári. „Það er mikill kostnaður í kringum landsbyggðarþingmenn. Það er bara hluti af þessu.“

Í nóvember á síðasta ári neitaði Ásmundur að upplýsa um hve mikið hann fengi endurgreitt vegna aksturs sem þingmaður og í samtali við Fréttablaðið sagði hann að fréttamenn væru ekki að spyrja hvað lögfræðingar Rauða krossins fengju greitt fyrir að senda bréf til innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitenda. Sama dag baðst hann hins vegar afsökunar á ummælum sínum í færslu sem hann birti á Facebook og sagðist hafa verið afar illa fyrirkallaður í viðtalinu.

mbl.is: Ásmundur biðst afsökunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert