„Ofbeldið fær ekki afslátt“

Hanna Kristín Skaftadóttir segir blendnar tilfinningar gagnvart dómsáttinni enda réttlæti …
Hanna Kristín Skaftadóttir segir blendnar tilfinningar gagnvart dómsáttinni enda réttlæti ekkert ofbeldi. Ljósmynd/Facebook

Hanna Kristín Skaftadóttir, fyrrverandi sambýliskona Magnúsar Jónssonar, fyrrverandi forstjóra Atorku, greinir frá því á Facebook-síðu sinni að Magnús hafi undirritað dómsátt vegna ofbeldis sem hann beitti hana úti í Texas í mars i fyrra. „Sigur! Ofbeldið fær ekki afslátt. Magnús Jónsson skrifar undir dómssátt, greiðir mér miskabætur, útlagðan kostnað og lögfræðikostnað,“ segir í færslunni.

Fjölmiðlar greindu frá því í fyrra að maður hefði verið hand­tek­inn í Aust­in vegna gruns um að hafa ráðist á ís­lenska kær­ustu sína. Hann var síðan úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart konunni í ágúst á sama ári. Heim­ild­ir mbl.is hermdu þá að maður­inn hefði áður verið kærður fyr­ir fjöl­mörg heim­il­isof­beld­is­brot hér á landi, en aldrei fengið dóm.

Hanna Kristín segir í samtali við mbl.is að dómsáttin feli í sér að Magnús gangist við verknaðinum. „Þetta er viðurkenning á því að þetta átti sér stað og að ég sagði rétt frá. Í því felst sigurinn, ekki í fjárhæðinni sem hann greiðir, heldur að hann skuli gangast við þessu eftir að hafa ítrekað reynt að ljúga sig út úr þessu.“ Hún bætir við að Magnús hafi gengið svo langt að stefna sér fyrir rógburð.  

Dómssáttin nú nær eingöngu til þess ofbeldis sem hún sætti af hálfu Magnúsar úti í Texas. Eða eins og Hann Kristín segir í færslu sinni. „Nú fer að verða komið ár síðan atburðurinn átti sér stað þar sem ég var illa barin af manninum sem ég taldi elska mig – hrökklaðist heim grátandi, með marið andlit, útþakin varnaráverkum á handleggjum og fótleggjum, sprungna vör og brotna tönn, í flug án síma (hann mölbraut símann og eyðilagði) eftir vinnuferð á SXSWedu sem átti að vera fagnaðarferð fyrir mig til að kynna fyrirtæki mitt Mimi Creations þar sem ég hef síðastliðin 4 ár unnið ötult að því að efla máltöku barna sem eiga við verulega málhömlun að stríða.“ 

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Hönnu Kristínar, staðfestir dómsáttina.
Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Hönnu Kristínar, staðfestir dómsáttina. Ljósmynd/Aðsend


Ekki tvær hliðar á öllum málum

Magnús hefur hins vegar ítrekað brotið á henni eftir þetta. „Hann reyndi að snúa þessu við og hefur alla tíð haldið uppi vörnum,“ segir hún og bætir við: „Eins og gerendur gera mjög oft í þessum málum að þá reyna þeir að segja þolandann bera sök, sem hann gerir ekki.“ Þeir reyni jafnvel að halda því fram að tvær hliðar séu á öllum málum en svo sé ekki alltaf. „Og það er rangt og villandi af fjölmiðlum að segja að svo sé.“

Hún kveðst hafa búist við ákveðinni lúkningu þegar dómsáttin fékkst, en ekkert réttlæti ofbeldi. „Það eru blendnar tilfinningar gagnvart því. Það er engin sátt í þessu þó að þetta sé undirrituð sátt og viðurkenning á verknaðinum þá er ekkert sem bætir hann og mun aldrei verða.“

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Hönnu Kristínar, staðfestir dómsáttina. „Málið var höfðað í byrjun janúar og dómsátt gerð í gær,“ segir hann. Magnús hafi óskað eftir sáttum eftir að stefnan var lögð fram. „Þarna mat hann stöðu sína þannig að hann ákvað að gera sátt,“ segir hann.

Viðurkenni verknaðinn með sáttinni

Arnar Þór segir verða að ætla að Magnús viðurkenni verknaðinn með dómsáttinni. „Í dómsorðinu fellst ekkert nema viðurkenning og þó að hann segir það ekki í texta, þá felst hann á að greiða í samræmi við málssókn sem byggð er á brotinu.“

Sakamáli yfirvalda í Texas gegn Magnúsi er lokið, en Hann Kristín kærði Magnús í apríl á síðasta ári vegna brota hans í sinn garð hér á landi og er sú kæra enn í rannsókn. Arnar Þór segir íslenska sakamálið lúta að 3-4 atvikum sem séu í rannsókn. „Þar eru einkaréttarlegar kröfur til viðbótar þessari kröfu. Þetta mál dekkaði bara Texas atvikið, en einkaréttarlegar kröfur vegna þeirra atvika sem enn er verið að rannsaka lifa enn og verða dæmdar samhliða hinu íslenska sakamáli.“

Hanna Kristín fékk sett nálgunarbann á Magnús í ágúst á síðasta ári, sem hún segir hann ekki hafa virt og því hafi þurft að kalla til lögreglu í nokkur skipti. Nálgunarbannið er þó við það að renna út, en enn er ekkert að frétta af dómkvaðningu vegna sakamálsins.  

Sakamálið taka mun lengri tíma en einkamálið. „Það tekur miklu lengri tíma þrátt fyrir að við séum að ýta á það og vinnum með lögreglunni, segir Hanna Kristín og kveðst ekki alveg sátt við hversu tímafrekt rannsóknarferlið sé hér heima.  

Þakkar MeToo byltingunni aukin stuðning

Þá sé líka erfitt að vera núna að takast á við tilfinningar núna út af máli sem átti sér stað fyrir næstum ári síðan. „Það kostar samfélagið líka að mál taki svona langan tíma, bæði fyrir brotaþola og geranda. Það væri sparnaður fyrir samfélagið að takast á við þetta strax,“ segir hún.

Hanna Kristín hefur fengið mikil viðbrögð við þeirri ákvörðun sinni að stíga fram og greina frá málinu. Stuðningurinn nú sé þó mun meiri en þegar hún greindi fyrst frá.

„Maður fann að á meðan verið var að reka málið áfram að þá var sumt fólk ekkert endilega að taka mikla og skýra afstöðu, heldur heyrði maður þessi rök að það væru tvær hliðar á öllum málum.“ Svo sé þó ekki alltaf og þakkar hún MeToo byltingunni m.a. því hvernig viðhorf fólks hafi breyst.

„Þetta hliðrar til því hvað er normið í samfélaginu, hvað við skiljum og hvað ekki,“ segir hún. „Maður fann það þegar maður steig fyrst fram að þá voru ekki jafn margir sem studdu mann,“ þetta hafi hins vegar breyst eftir því sem röddunum hafi fjölgaði og fleiri hafi í kjölfarið þorað að taka afstöðu. „Þessar raddir ofbeldismanna eru svo háværar að þær varpast yfir raddir þolenda sem fara í varnarstöðu og eiga alltaf á brattan að sækja gagnvart samfélaginu. Það styrkir raddir þolenda að það sé tekin skýr afstaða með þeim í upphafi en ekki að það sé einhver vafi, því það er enginn vafi í svona málum,“ segir Hanna Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert