Sigmundur vitnaði í John Lennon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lífið er það sem gerist á meðan menn eru uppteknir við að gera önnur plön,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun og vitnaði þar í John Lennon.

Tilefnið var fyrirspurn hans um sölu ríkisins á hlut sínum í Arion banka.

Sigmundur Davíð spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort ríkið mun afsala sér forkaupsrétti af hlutabréfum í Arion banka eins og vogunarsjóðir hafi farið fram á.

Einnig spurði hann hvort ríkið ætli að selja vogunarsjóðunum þau 13% sem það á í bankanum beint, í samræmi við kröfur sömu aðila.

Sigmundur Davíð sagði málið vera eitt það umtalaðasta hérlendis á síðustu tíu árum en þrátt fyrir það væri ríkisstjórnin ekki byrjuð að mynda sér stefnu í því. Vitnaði hann í framhaldinu í orð Johns Lennons.

Bjarni sagði fyrirspurnina byggjast á fullyrðingu um að íslenska ríkið eigi forkaupsrétt á hlutabréfunum í Arion banka og því sé fullyrðingin röng.

„Hafi íslenska ríkið forkaupsrétt hefur engin ákvörðun verið tekin um að falla frá honum,“ svaraði Bjarni. Varðandi sölu á 13 prósentunum beint sagði hann að enginn sé að tala um að selja hlut ríkisins í beinni sölu.

Öll gögn verði birt

Sigmundur Davíð steig aftur í pontu og sagði ráðamenn nota hvert tækifæri sem gefst til að spila frá sér hagmuni landsins. „Hér liggur það fyrir að þessir aðilar eru að fara fram á það við ríkið að það afsali sér forkaupsrétti fyrirfram,“ sagði hann og bætti við: „Hvers vegna er verið að fara fram á að ríkið afsali sér réttinum?“

Hann óskaði eftir því að öll gögn varðandi stöðugleikaskilyrðin yrðu birt og svaraði Bjarni því þannig að hann væri talsmaður þess að mest af gögnunum verði birt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert