Skoða dóma vegna myglu í fasteignum

Dómsmálum vegna myglu í fasteignum hefur fjölgað síðustu misseri.
Dómsmálum vegna myglu í fasteignum hefur fjölgað síðustu misseri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftirsóknin eftir þessu námskeiði sýnir að það er mikill áhugi fyrir þessu. Þessi mál eru í umræðunni og menn eru mikið að spá í þau,“ segir Hildur Ýr Viðarsdóttir hæstaréttarlögmaður sem kennir námskeið um myglu í fasteignum hjá Lögmannafélagi Íslands.

Félagið heldur tvö námskeið um myglu í fasteignum. Hið fyrra hefst klukkan 16 í dag og hið síðara verður 1. mars en því námskeiði var bætt við vegna mikillar eftirspurnar. 

Hildur Ýr hefur einnig verið fengin til að kenna samskonar námskeið hjá Félagi fasteignasala. Það verður haldið í apríl.

Félag fasteignasala vill læra af þeim dómum sem hafa fallið …
Félag fasteignasala vill læra af þeim dómum sem hafa fallið í tengslum við myglu. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Fjölgun dómsmála

Fram kemur á vefsíðu félagsins að dómsmálum vegna myglu í fasteignum hafi fjölgað síðustu misseri.

Á námskeiðunum verður farið yfir nýlega dóma vegna myglu í fasteignum og álitaefni þeirra krufin.

Þar verður velt upp hvað þarf að hafa í huga við rekstur slíkra mála, meðal annars um þær sönnunarkröfur sem dómstólar hafa gert, hvernig matsspurningar til dómkvaddra matsmanna gætu litið út og hvað þarf að passa í stefnugerð þegar slík mál eru sótt, að því er kemur fram á vefsíðunni.

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.
Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.

Vilja læra af dómum 

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir félagið einu sinni áður hafa haldið námskeið um myglu.

„Það er mjög mikilvægt fyrir fasteignasala að læra hvar helstu varúðarmerkinu eru hvað varðar myglu og annað. Við viljum gjarnan reyna að læra af þeim dómum sem hafa fallið á undanfönum misserum. Þetta er ákaflega mikilvægt efni sem fasteignasalar þekkja vel. Svona mál eru því miður alltaf að koma upp öðru hvoru hjá okkur,“ segir Grétar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert