Bilun í Herjólfi strax eftir viðgerð

Herjólfur var að koma úr viðgerð en önnur viðgerð bíður …
Herjólfur var að koma úr viðgerð en önnur viðgerð bíður hans nú.

Í gærkvöldi þegar Herjólfi var siglt til Þorlákshafnar frá Hafnarfirði eftir tveggja vikna viðgerð kom í ljós ný bilun í skipinu, en skipta þarf um dælur í glussakerfi skipsins sem sér meðal annars um að opna skutinn þar sem bílar koma inn. Vegna þessa mun tefjast að Herjólfur hefji áætlunarsiglingu á ný og verður norska skipið Bodø áfram notað næstu daga, ef veður leyfir.

Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, segir í samtali við mbl.is að bilunin hafi komið í ljós í gærkvöldi þegar komið var í Þorlákshöfn, en dönsku sérfræðingarnir sem höfðu unnið að viðgerð skipsins áttu að fara þar í land.

Í dag hafi svo umboðsaðili kerfisins farið um borð og nú standi yfir mat á því hvað þurfi að gera. „Það er ljóst að það þarf að skipta um eina eða tvær dælur,“ segir Gunnlaugur. Hann segir ekki ljóst að svo stöddu hvort þær séu til hér á landi eða hvort það þurfi að panta þær að utan. Þar af leiðandi sé ekki ljóst hversu lengi Herjólfur muni verða frá í þetta skiptið. Segir hann nánari upplýsinga að vænta síðar í dag.

Í morgun átti að vera fyrsta áætlunarferð Herjólfs eftir viðgerðina frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja, en ekkert varð af henni vegna málsins. Fór Bodø í staðinn og segir Gunnlaugur að þeir muni áfram geta nýtt norska skipið. Það sé þó mun háðara veðri og sjólagi og til dæmis sé óvíst hvort síðari ferðin í dag verði farin vegna slæmrar veðurspár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert