Grunaður um brot gegn átta börnum

mbl.is/Hari

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar enn eitt málið gegn stuðningsfulltrúa, sem situr í gæsluvarðhaldi fyrir að hafa brotið gegn skjólstæðingi sínum. Er maðurinn nú grunaður um kynferðisbrot gegn að minnsta kosti átta börnum.

Ární Þór Sigmundsson  aðstoðaryfirlögregluþjónn segir grun um að þetta síðasta brot sem lögregla hefur nú til skoðunar hafi átt sér stað fyrir aldamót. 

Hann segir rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á máli mannsins annars miða vel áfram. „Við höfum talað við á fimmta tug manna, en rannsóknin ber þess merki að við erum að tala um löngu liðna atburði,“ segir Árni Þór. „Eins og staðan er, þá hefur hins vegar ekkert komið fram sem tengir meint brot mannsins við skjólstæðinga hans hjá Barnavernd Reykjavíkur.“

Átta starfsmenn deildarinnar vinni að málinu eins og þurfa þykir og kveður Árni Þór þá sem lögregla hefur rætt við vera samstarfsfúsa. „Það er yfirleitt þannig,“ bætir hann við og segir rannsóknina langt komna. „Það er ekki margir sem að við eigum eftir að ræða við áður en við náum að ljúka þessu. Við leggjum líka allt kapp á að ljúka þessu þannig að við getum komið þessu áfram.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði í dag í Héraðsdómi Reykjaness fram áframhaldandi kröfu um tveggja vikna gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli rannsóknar- og almannahagsmuna í tengslum við rannsókn sína. Héraðsdómur féllst á kröfuna á grundvelli rannsóknarhagsmuna til einnar viku og situr maðurinn því áfram í varðhaldi til 16. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert