Innri rannsókn lögreglu gengur vel

Karl Steinar Valsson stýrir verkefninu hjá embættinu.
Karl Steinar Valsson stýrir verkefninu hjá embættinu. mbl.is/Rósa Braga

Undanfarna daga hefur Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skoðað ítarlega hvað kunni að hafa farið úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á ætluðum kynferðisbrotum karlmanns, sem tilkynnt var um í sumarlok 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þar kemur jafnframt fram að unnið hafi verið að frekari greiningu á þeim 170 málum sem nú eru til meðferðar og rannsóknar hjá kynferðisbrotadeild LRH, ekki síst með tilliti forgangsröðunar. Skipaðir voru tveir hópar hjá embættinu til að sinna þessu verki undir stjórn Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns og tengslafulltrúa Íslands hjá Europol.

Samkvæmt tilkynningunni miðar fyrrnefndri vinnu vel og áformar embættið að kynna niðurstöður vegna þessa í byrjun næstu viku.

Maðurinn sem um ræðir var starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur og starfaði einnig sem stuðningsfulltrúi. Drengur sem segir manninn hafa brotið á sér kynferðislega á sér þegar hann var á aldrinum 8 til 14 ára lagði fram kæru á hendur honum í ágúst síðastliðnum. Lögregla hóf hins vegar ekki rannsókn á málinu fyrr en í desember, fimm mánuðum eftir að kæran var lögð fram. Á meðan starfaði maðurinn á skammtímaheimili fyrir unglinga í Breiðholti, líkt og hann hafði gert frá árinu 2010.

Réttargæslumaður drengsins sendi lögreglu ítrekaðar fyrirspurnir um stöðu málsins, án þess að fá svör, frá því að kæra var lögð fram og þar til málið var tekið til skoðunar. Sagði hann það hafa komið skýrt fram í gögnum málsins að maðurinn starfaði með börnum. Eftir að fjölmiðlaumfjöllun um málið hófst kom einnig í ljós að kæra hafði einnig verið lögð fram á hendur manninum árið 2013 fyrir kynferðisbrot gegn barni, en brotin voru talin fyrnd og málið því fellt niður. Þá fékk lögregla tilkynningu um meint brot mannsins gegn barni árið 2015.

Átta einstaklingar hafa nú stöðu brotaþola í málum tengdum manninum, en meint brot hans áttu sér stað frá aldamótum og til ársins 2010.

Maðurinn var handtekinn í síðasta mánuði og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 19. janúar síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert