Snýst um viðhorf allra Íslendinga

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var mjög ánægjulegur dagur og óvanalegt að vinna með þessum hætti á Alþingi Íslendinga,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að lokinni hinni svokölluðu rakarastofuráðstefnu sem var haldin á Alþingi.

„Mér fannst þetta uppbyggilegt og gott og ég er sannfærður um það að þetta geti verið byrjunin á einhverju sem við getum verið mjög ánægð með.“

Ráðstefnan var haldin í samstarfi við UN Women á Íslandi og utanríkisráðuneytið vegna #metoo-byltingarinnar.

mbl.is

Eftirspurn eftir framlagi Íslendinga

Guðlaugur Þór sagði það vera hornstein í utanríkisstefnu Íslendinga að leggja ávallt áherslu á jafnréttismál, hvort sem um er að ræða viðskiptamál, öryggis- og varnarmál eða þróunarmál. Hann minntist á hina svokölluð verkfærakistu sem er hýst á  HeForShe-vefnum og hefur verið notuð víðsvegar um heiminn.

Hann og Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, fluttu á ráðstefnunni sameiginlega, stutta hugleiðingu um tilurð og hugmyndafræði rakarastofuráðstefna.

„Það hafa um tvö þúsund manns tekið þátt í ráðstefnum tengdum þeim og þeim fer fjölgandi. Það er mjög eftir því tekið hvað við Íslendingar eru framarlega þegar kemur að jafnréttismálum og mikil eftirspurn eftir okkar framlagi og framgöngu í þeim málum,“ sagði ráðherrann í samtali við mbl.is og bætti við að stóra málið þegar kemur að #metoo-baráttunni snúist um viðhorf, ekki bara þingmanna heldur allra Íslendinga.

Frá Gleðigöngunni á síðasta ári.
Frá Gleðigöngunni á síðasta ári. mbl.is/Hanna

Mikil hugarfarsbreyting vegna hinsegin-fólks

„Ég held að það sé gott að líta til þess sem vel hefur gengið. Við ræddum það í okkar hópi að það hefur orðið mjög jákvæð og mikil hugarfarsbreyting á meðal þjóðarinnar þegar kemur að hinsegin-samfélaginu. Það sem viðgekkst fyrir nokkrum áratugum síðan myndi aldrei viðgangast í dag,“ greindi hann frá.

„Ég held að við ættum að heimfæra það sem hefur gerst þar og á fleiri sviðum yfir á þessi mál og nota þessa #metoo-byltingu til þess að útrýma kynferðislega ofbeldinu og sömuleiðis þessari menningu sem sættir sig við kynferðislega áreitni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert